Nýtt Grófarhús | Vinnustofur og viðtal við hönnunarteymið
Vinnustofur með notendum, starfsfólki og hagaðilum
Vikuna 27. febrúar – 3. mars hélt hönnunarteymið sem stendur á bakvið vinningstillögu af nýju og umbreyttu Grófarhúsi, átta samráðsvinnustofur með starfsfólki, notendum bókasafnsins og hagaðilum, þar sem rýnt var í tillöguna og skapandi samtal og endurgjöf átti sér stað. Þetta er mikilvæg nálgun í hönnunarferli sem þessu, en samtalið sem átti sér stað skilaði dýpri skilning á hvaða væntingar nútíma samfélagsbókasafn þarf að uppfylla, út frá sjónarhóli notenda. Hönnunarteymið mun svo sýna afraksturinn úr þessum vinnustofum á Hönnunarmars, þar sem borgarbúum gefst tækifæri til að fylgjast með og hafa áhrif á þessa spennandi framkvæmd. Hér má skoða vinningstillöguna á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar.
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri nýsköpunar og Barbara Guðnadóttir safnstjóri Borgarbókasafnins í Grófinni skipulögðu og leiddu vinnustofurnar í samvinnu við hönnunarteymið, sem samanstendur af JVST arkitektum, Inside Outside upplifunarhönnuðum, Kreativa innanahússhönnun og bókasafnssérfræðingi frá Hanrath Arkitektum.
Viðtal við hönnunarteymið
Samvinnan sem skapaðist á vinnustofunum kom flestum á óvart
Við vorum forvitin að heyra hvað hönnunarteymið hefði um þetta skapandi samráð að segja, svo við tókum stutt spjall eftir vinnustofurnar.
Svipaði hönnunarferlinu og kröfum samkeppninnar til annarra verkefna sem þið hafið tekið þátt í?
Alls ekki. Þetta var alveg einstakt og ótrúlega frábært reyndar. Þá sérstaklega skipulagið; það var haldinn kynningarfundur fyrir alla þátttakendurna í forvalinu. Grundvallarviðhorfið var mjög skýrt og skilmerkilega komið til skila frá upphafi – væntingar framtíðarbókasafnsins. Við fengum að heyra sögu – í stað þess að skoða tölfræði. Það hafði augljóslega mikil forvinna verið unnin og teymið var mjög innblásið af verkefninu frá upphafi. Venjulega, í sambærilegum verkefnum, er áherslan lögð á bygginguna frá sjónarhorni arkitektúrsins, en ekki endilega hvernig byggingin er notuð. Notandi byggingarinnar var mjög mikilvægur í þessu verkefni og það kom skýrt fram á kynningarfundinum í upphafi. Áherslan er ekki á hversu mörgum bókum má koma fyrir í rýminu heldur frekar á hlutverk bókasafnsins í Reykjavík.
Bókasafnið bað okkur að setja saman sögu þeirra á þann hátt sem okkur fannst best passandi, þar sem aðaláherslan væri á að bókasafnið er staður fyrir alla borgina, aðgengilegt öllum.
Við sjáum bygginguna sem margra laga vita og vildum vera viss um að fólk myndi nota alla bygginguna. Við ákváðum að útfæra kaffihús á efstu hæðinni þar sem útsýnið er fallegast, dálítið eins og verðlaun fyrir að vera komin upp á topp!
Við sjáum líka mikla möguleika í svæðinu fyrir utan bókasafnið. Við lítum á safnið sem framlengingu á almenningsrými borgarinnar og það var kjarninn í samtalinu sem átti sér stað í þessum átta vinnustofum sem við héldum með starfsfólki bókasafnsins, notendum og hagsmunaaðilum.
Hvert var markmiðið með vinnustofunum átta?
Við vildum fá eins mörg sjónarhorn og mögulegt væri. Þátttakendur í vinnustofunum lögðu sig fram við að skilja teikningarnar/drögin frá mismunandi sjónarhornum og við fengum dýrmæta endurgjöf. Þetta hefur gefið okkur dýpri skilning á því fyrir hvern við erum að byggja þetta bókasafn og hvernig það verður notað. Starfsfólk bókasafnsins er mjög skapandi og metnaðarfullt, það brennur augljóslega fyrir safninu. Svona snemma í ferlinu er líka mikilvægt að bæði almenningur og starfsfólkið fái tilfinninguna fyrir því að vera hluti af ferlinu og eignist þar með dálítið í byggingunni.
Hönnunarteymið nýtur náttúrunnar
Mynduð þið segja að vinnustofurnar hafi aukið gildi hönnunarferlisins?
Við erum að leggja af stað inn í næsta stig hönnunarferlisins með mun betri skilning á hvers konar staður Borgarbókasafn Reykjavíkur er og hvers konar staður það getur orðið. Starfsemin sem nú þegar á sér stað það er mjög tilkomumikil og hugmyndafræðin er skýr og sterk. Allt sem þarf er meira pláss!
Hvað finnst ykkur mest spennandi við bygginguna?
Byggingin er almenningsrými með þak, hún hefst á götunni og nær alla leið upp í þakið. Hún er aðgengileg öllum, engin krafa er gerð um neyslu af neinu tagi – þú getur bara komið hingað og fengið innblástur. Við erum mjög spennt fyrir hinum „hringlaga Vitavegi“ sem liggur upp í gegnum allar hæðirnar og leiðir gesti upp á topp. Okkur finnst það vera hugmynd sem virkar og við höfum tækifæri til að aðlaga allt sem við lærðum á vinnustofunni inn í hugmyndina um Vitaveg. Þú finnur alls konar ánægjulegt á leiðinni!
Byggingin er mjög þekkt í dag svo þessi umbreyting snertir huga margra. Það eru margir spenntir að sjá útkomuna.
Hver eru næstu skref í hönnunarferlinu?
Nú erum við að fara yfir hönnunina með tilliti til niðurstaðna vinnustofanna. Þá munum við finna spennandi leið til að kynna nýjustu útfærsluna fyrir almenningi á Hönnunarmars.
Það verður sýning í húsnæðinu sem í augnablikinu stendur autt, en er tengt við Grófarhús. Þetta húsnæði verður hluti af nýja bókasafninu. Þarna mun gefast tækifæri til að gægjast inn í framtíðina.
Nánari upplýsingar um verkefnið og dagskrána á Hönnunarmars veitir:
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri nýsköpunar
gudrun.lilja.gunnlaugsdottir@reykjavik.is | s. 698 2466