Hönnunarsamkeppni | Nýtt Grófarhús
Spennandi tímar framundan. Nýtt Grófarhús er í farvatninu, lifandi rými fyrir íbúa til framtíðar.
Reykjavíkurborg efnir til hönnunarsamkeppni um endurhönnun, stækkun og stórkostlega breytingu á Grófarhúsi við Tryggvagötu í Reykjavík, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Borgarbókasafnið er staðsett á sjö stöðum og Grófarhúsið í miðborginni er eitt af mikilvægum stoðum sem lifandi samfélagsrými, bókasafn og þátttökugátt fyrir borgarbúa.
Framkvæmdin mun fela í sér gagngera endurgerð Grófarhússins og tengingu við nýja viðbyggingu. Hugmyndin er að með nýrri byggingu eflist og breikkar starfsemin í anda breytinga á bókasöfnum í nágrannalöndum. Grófarhúsið verður lifandi menningar- og samfélagshús í Miðborg Reykjavíkur þar sem fólk getur komið saman sem og verið einsamalt, leitað sér upplýsinga, dvalið á eigin forsendum, notið aðgengis að safnkosti, fjölbreyttu rými, tækjum, upplifun óháð efnahag, kyni, heilsu, þjóðerni.
Lögð er áhersla á endurnýtingu og sjálfbærni í samræmi við hugmyndafræði Græna plansins. Til að mynda eru hugmyndir um að á húsinu verði þakgarður, sælureitur í miðborginni þar sem borgarbúar geta notið samveru og útsýnis yfir höfnina og Grjótaþorpið.
Auglýst er eftir þátttöku í forvali fyrir hönnunarsamkeppni um nýtt Grófarhús. Umsóknum skal skilað rafrænt fyrir klukkan 12:00 á hádegi þann 10. febrúar 2022.
Sjá nánari upplýsingar hér um skil umsókna og helstu dagsetningar varðandi forval og hönnunarsamkeppnina í heild sinni.
Keppendur þurfa að skrá sig inn á útboðsvef Reykjavíkurborgar til þátttöku.
Forvalsnefnd fer yfir umsóknir sem berast og velur fimm teymi til þátttöku í hönnunarsamkeppnina fyrir framtíðarbókasafn miðborgarinnar.
Til að taka þátt í forvali þarf að mynda þverfaglegt teymi sem í eru að minnsta kosti einn arkitekt, einn innanhússarkitekt og einn upplifunarhönnuður.
Þau 5 teymi sem valin verða í forvalinu og koma með tillögur fyrir samkeppnina fá greiddar 5.000.000 kr. hvert fyrir gerð samkeppnistillögu.
Þann 4. mars verður tilkynnt um niðurstöðu dómnefndar forvals, hvaða 5 tillögur muni taka þátt í samkeppni um nýtt og endurhannað Grófarhús.