HönnunarMars 2025 | Tilraunastofa ímyndunaraflsins

ÞYKJÓ skapar heim barnanna

Verið velkomin á Tilraunastofu ímyndunaraflsins á HönnunarMars.

Tilraunastofa ímyndunaraflsins er tilraunarými sem sett er upp í viðbyggingu Grófarhúss í tilefni af HönnunarMars. Um er að ræða sýnishorn af ævintýralegri hönnun á barnahæð, sem hönnunarhópurinn ÞYKJÓ skapar fyrir framtíðarbókasafnið í samstarfi við hönnunarteymi nýs Grófarhúss

Tilraunastofa ímyndunaraflsins er opin almenningi á meðan á HönnunarMars stendur. Við bjóðum fjölskyldufólk sérstaklega velkomið að koma og prófa ýmsar frumgerðir af hugmyndaborðinu og hafa áhrif á hönnunarferlið með endurgjöf og samtali við ÞYKJÓ. 

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, opnar Tilraunastofu ímyndunaraflsins, föstudaginn 4. apríl kl. 15:00. Öll hjartanlega velkomin.

Tilraunastofan er opin 3. og 4. apríl kl. 11-18 og 5. og 6. apríl kl. 11-17


Engin skráning er á viðburði Tilraunastofunnar

 


Nánar um barnahæðina

Skynvitund yngstu gesta Borgarbókasafnsins fær að njóta sín í nýju og endurbættu framtíðarbókasafni Reykvíkinga. Börnin stíga inn í sköpunarheim „ljóss & skugga“ á hæð sem verður alfarið tileinkuð þeim í umbreyttu bókasafni við Tryggvagötu.

Borgarbókasafnið, Hönnunarteymi Grófarhúss og ÞYKJÓ hafa unnið saman að þróun barnadeildarinnar. Notendur bókasafnsins tóku þátt í vinnustofum og samtölum á frumstigum hönnunarferlisins og nú spyrjum við: Hverjir voru draumar notenda? Geta óskir þeirra ræst?

Á hugmyndaborði ÞYKJÓ eru meðal annars þrautabrautir, leshellar, söguskógur, skýjaborgir og krílalaut fyrir yngstu börnin.

Vitavegurinn er vinningstillaga að endurgerð Borgarbókasafnsins í Grófinni. Hugmyndavinna og hönnun byggja á reglulegu og víðtæku samráði við borgarbúa og aðra hagsmunaaðila.

Hönnunarhópur Grófarhúss: JVST arkitektar, Inside Outside hönnuðir, Kreativa innanhússhönnun, bókasafnssérfræðingur frá Hanrath arkitektum og þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ .

Tilraunastofa ímyndunaraflsins er staðsett í Tryggvagötu 15, í húsnæðinu sem í augnablikinu stendur autt, en er tengt við Grófarhús. Þetta húsnæði verður hluti af nýju og umbreyttu bókasafni. 


Samantekt um nýtt Grófarhús - framtíðarbókasafn borgarbúa
Vefur Hönnunarmars 2025


Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri nýsköpunar
gudrun.lilja.gunnlaugsdottir@reykjavik.is