
Um þennan viðburð
HönnunarMars | Tilraunastofa ímyndunaraflsins
Verið velkomin á Tilraunastofu ímyndunaraflsins á HönnunarMars 2025
Tilraunastofa ímyndunaraflsins er tilraunarými sem sett er upp í viðbyggingu Grófarhúss í tilefni af HönnunarMars 2025. Um er að ræða sýnishorn af ævintýralegri hönnun á barnahæð, sem hönnunarteymið ÞYKJÓ hefur verið fengið til að skapa fyrir framtíðarbókasafnið í samstarfi við hönnunarteymi nýs Grófarhúss.
Tilraunastofa ímyndunaraflsins er opin almenningi á meðan á HönnunarMars stendur. Við bjóðum fjölskyldufólk sérstaklega velkomið að koma og prófa ýmsar frumgerðir af hugmyndaborðinu og hafa áhrif á hönnunarferlið með endurgjöf og samtali við hönnunarteymið.
Til sýnis verða meðal annars þrautabraut, leshellir, söguskógur, skýjaborg og krílalaut fyrir yngstu börnin. Börnum og fjölskyldum þeirra gefst tækifæri til að taka þátt í þessum áþreifanlega áfanga hönnunarferlisins og fá skýrari tilfinningu fyrir nýju og umbreyttu bókasafni sem brátt mun líta dagsins ljós.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, opnar Tilraunastofu ímyndunaraflsins, föstudaginn 4. apríl kl. 15:00. Öll hjartanlega velkomin.
Viðburðir á Tilraunastofunni - skráning er ekki nauðsynleg
- 5. apríl kl. 13:00-15:00: Skýjaborgir með ÞYKJÓ | Skapandi smiðja fyrir 5-10 ára
- 6. apríl kl. 11:00-12:00: Krílalautin með ÞYKJÓ | 0-2 ára upplifa Krílalautina
Tilraunastofan er opin 3. og 4. apríl kl. 11-18 og 5. og 6. apríl kl. 11-17
Nánar um barnahæðina og nýtt Grófarhús
Samantekt um nýtt Grófarhús - framtíðarbókasafn borgarbúa
Vefur Hönnunarmars 2025
Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri nýsköpunar
gudrun.lilja.gunnlaugsdottir@reykjavik.is | 411 6114