Fiktaðu meira!

Í boði á Tilraunaverkstæðinu

Kennarar athugið! Þið getið skráð bekkinn ykkar í bekkjarkynningu á Tilraunaverkstæðið í Gerðubergi hér.

Bókasöfn eru í hraðri þróun í átt að því að verða lærdóms- og þekkingarrými. Almenningsbókasöfn víða um heim eru leiðandi í tilraunum um að veita opinn aðgang að nútímatækni og tækjabúnaði þar sem útbúin eru svokölluð „Makerspaces“ eða tilraunaverkstæði þar sem gestir fá aðgang að opnu rými til að prófa sig áfram, skapa og uppgötva nýja hluti. Þannig stuðla bóksöfnin að jöfnu aðgengi barna og fullorðinna til að kynna sér spennandi tækni og öðlast meiri hæfni.

Krakkar og fullorðnir hafa hér aðgang að tölvunum og geta fiktað sig áfram í forritunarleikjum, notað 3D prentarann okkar eða vínylskerann.

Hér er hægt að kynnast Raspberry Pi tölvunum, taka fyrstu skref í forritun í Scratch (sem hentar yngstu börnunum vel) og læra grunnhugtök forritunar með því að forrita í Minecraft, leika með makeymakey og fleira. 

Borgarbókasafnið vill leggja sitt af mörkum til að auka aðgengi að tækniþekkingu borgarbúa á öllum aldri. Liður í því er samstarf við félagasamtökin Skema HR sem hófst sumarið 2016, þá undir nafninu Kóder, og strax um haustið byrjuðu menningarhúsin að prófa sig áfram með tilraunaverkstæði með leiðbeinendum frá Skemu. 

Skema HR hefur að leiðarljósi að breiða út þekkingu á forritun til sem flestra án tillits til stöðu eða efnahags. Markmið samstarfsins er að bjóða börnum upp á ýmiss konar smiðjur og námskeið. 

Samtökin Skema HR heimsækja okkur reglulega og standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn og unglinga í ýmiss konar forritun með þá hugsjón að öll börn skuli hafa greiðan aðgang að þeirri þekkingu sem forritun, tæknikunnátta og tæknilæsi felur í sér. Samtökin hafa einnig haldið námskeið fyrir grunnskólakennara sem vilja auka þekkingu sína og nýta forritun í eigin starfi. Borgarbókasafnið deilir þeirri hugsjón og með tækniverkstæðinu er unnið að því að efla læsi fólks á stafrænum miðlum, með því að skapa vettvang og aðstöðu til að kynna nýja tækni og hugmyndir sem leiðir til nýrrar þekkingaröflunar. 

Tæknilæsi og forritun eru óðum að verða lykilþættir í menntun barna og fullorðinna, auk þess sem hugmyndafræði nýsköpunar nýtist á öllum sviðum. Borgarbókasafnið stefnir að því að verða skapandi samverurými sem styður þekkingaröflun á fjölbreyttan hátt. 

Við bjóðum reglulega upp á námskeið tilraunaverkstæðinu í Gerðubergi. Einnig höfum við fært búnaðinn tímabundið á milli safna til þess að geta haldið námskeið í öðrum menningarhúsum okkar.

Rafknúnir ávextir

Í bígerð er að opna tónlistartilraunaverkstæði í Grófinni. Fylgist með!