Um þennan viðburð
Jólalag Borgarbókasafnsins 2023 | Úrslit
Hátíðleg athöfn í Úlfarsárdal þar sem dómnefnd tilkynnir höfund Jólalags Borgarbókasafnsins 2023. Í kjölfarið verður lagið frumflutt fyrir gesti og gangandi.
Í dómnefnd sitja þrír vel valdir góðkunningjar bókasafnsins. Fyrst ber að nefna Hildi Björgvinsdóttur verkefnastjóra í deild miðlunar og nýsköpunar hjá Borgarbókasafninu. Hildi er margt til lista lagt en hún lagði stund á klassískt píanó sem barn og unglingur og lét svo gamlan draum rætast og fór að læra á selló rúmlega tvítug. Hún hefur líka sungið í kórum og elskar að fara á góða tónleika.
Svo er það Þorgrímur Þorsteinsson, sérfræðingur á Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal en hann er annar tveggja hljóðtæknimanna sem sjá um hljóðverið þar. Þorgrímur er menntaður tónlistarmaður og upptökustjóri og hefur sérhæft sig á sviði á sígildrar tónlistar og jazztónlistar. Hann lauk námi við tónmeistaradeild Konunglega tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn sumarið 2020 en lauk áður prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands (2015) og burtfararprófi í jazzgítarleik frá Tónlistarskóla FÍH (2017).
Síðast en ekki síst Jón Ólafsson, formaður dómnefndar, en hann er landsmönnum að góðu kunnur fyrir störf sín í tónlist og fjölmiðlum. Jón er meðlimur í hljómsveitinni Nýdönsk, hefur samið helling af lögum sem Íslendingar þekkja vel og er auk þess með útvarpsþætti á Rás 2 og í starfi sem framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda.
Við hvetjum öll til að mæta, hlýða á og komast í sannkallað hátíðarskap.
Boðið verður upp á piparkökur og kakó.
Nánar má lesa um Jólalag Borgarbókasafnsins 2023 hér.
Nánari upplýsingar veitir:
Stella Sif Jónsdóttir | Viðburðir
stella.sif.jonsdottir@reykjavik.is | 411 6270