Umstang og tilstand á aðventu

Nú fer vikunum fækkandi, sem eftir eru til jóla, og ýmislegt sem huga þarf að í hamaganginum sem gjarnan fylgir þessum tíma. Mörg okkar finna fyrir kvíða og hafa áhyggjur af praktískum hlutum sem samtíminn hefur sagt okkur að sé nauðsynlegt að sinna – og klára í tæka tíð – svo jólin hreinlega komi. 

Og ekki hjálpa samfélagsmiðlar þar. Samanburður jólaundirbúnings þíns við jólaundirbúning annarra… hlýtur að vera uppskrift að andvökunótt. 

En talandi um uppskriftir! Á Borgarbókasafninu er nóg af þeim og við viljum hvetja gesti okkar til að setjast niður með uppskriftabók til að sækja sér andagift í aðdraganda jólanna. Af nógu er að taka.

 

Smákökur og bakstur:

Innblástursofn fyrir eldhús án áforma (þessi var slappur, en við reyndum)! Gluggaðu í uppskriftabækur og láttu þig dreyma um kökur og kruðerí - og hví ekki að ganga lengra og láta drauminn rætast? 

Við eigum óteljandi eintök af uppskriftarbókum sem hver og ein geymir ógrynni uppskrifta. Til dæmis má nefna Easy cookie recipes : 103 best recipes for chocolate chip cookies, cake mix creations, bars, and holiday treats everyone will love (langur titill en bókin stendur fyllilega undir honum). Smákökur fyrir jólasveininn, tengdapabba, fingralanga jólakrakka... nú eða bara rúgbrauð fyrir síldina!

Skoðið úrval bakstursbóka á heimasíðu Borgarbókasafnsins.

 

Jólaföndur: 

Langar þig að rifja upp jólaföndrið úr æsku en óttast að sogast inn í hyldýpi samfélagsmiðlanna ef þú reynir að fletta því upp á netinu? Ekki hafa áhyggjur, við eigum þetta á bók.

Sjáðu úrval jólaföndurbóka á heimasíðunni okkar.

 

Jólamatur:

Flest heimili hafa jólahefðir og maturinn er þar í aðalhlutverki. Og jafnvel þótt þú hafir ekki í hyggju að gjörbreyta siðunum, þá er aldrei að vita nema þú finnir óvænta útgáfu af gömlu lummunni í einhverri matreiðslubók á bókasafninu… eða glænýtt meðlæti!

Gluggaðu í gnægtir jólamatreiðslubóka sem til er á Borgarbókasafninu.

 

Komdu í heimsókn á bókasafnið og fáðu þér sæti í þægilegum hægindastól, gríptu bunka af uppskriftabókum og láttu þig dreyma um töfrandi jólastundir... Borgarbókasafnið veitir hvíld í dagsins amstri!

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 6. desember, 2023 10:12