Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 21:15
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir

KVEIKJA | Að lifa og deyja í ljóði

Miðvikudagur 12. október 2022

Skáldin Anton Helgi Jónsson, Hrafnhildur Hagalín og Alda Björk Valdimarsdóttir mæta á fyrstu Kveikju haustsins, með ljóðlegan eld í farteskinu og fjalla um innblástur og efnivið í nýlegum ljóðabókum sínum. 

Skáldin svara spurningum um kveikjur og flytja brot úr nýjustu verkum sínum sem komu út fyrr á þessu ári:

Anton Helgi Jónsson, ljóð- og leikskáld, hefur verið mikilvirkur á ritvellinum, gefið frá sér ljóð, leikrit, skáldsögu og þýðingar. Fyrsta ljóðabók hans Undir regnboganum, kom út árið 1974 og á eftir hafa fylgt fjöldi ljóðabóka. Nýjasta verkið og hans tíunda frumsamda ljóðabók er frá þessu ári og ber nafnið Þykjustuleikarnir. Anton Helgi hefur hlotið viðurkenningar fyrir skáldskap sinn í gegnum tíðina og hlaut nú á dögunum Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar.


Alda Björk Valdimarsdóttir er með doktorspróf í almennri bókmenntafræði og er prófessor í greininni við Háskóla Íslands. Meðal helstu rannsóknarverkefna hennar eru enskar nítjándualdar bókmenntir með sérstakri áherslu á skáldverk Jane Austen. Árið 2018 kom út verk hennar Jane Austen og ferð lesandans. Fyrsta ljóðabók Öldu, Við sem erum blind og nafnlaus, kom út árið 2015 og hennar nýjasta ljóðabók frá þessu ári nefnist Við lútum höfði fyrir því sem fellur. 


Hrafnhildlur Hagalín Guðmundsdóttir hefur starfað sem leikskáld, þýðandi og dramatúrg um árabil. Meðal leikrita hennar eru Ég er meistarinn og Hægan, Elektra auk fleiri verka, leikgerða, útvarpsverka og þýðinga. Hrafnhildur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Leikskáldaverðlaun Norðurlanda. Hún starfar nú sem listrænn ráðunautur og staðgengill leikhússtjóra í Þjóðleikhúsinu. Skepna í eigin skinni er fyrsta ljóðabók Hrafnhildar.


Kveikja er samtal lista og fræða um eld og innblástur, skynjun og sköpunarferli. Fjallað er um áhrif og eilífa glímu við andagift. Fræðimenn og listafólk koma saman og flytja hugvekju og bregðast við hugmyndum hvers annars um sköpunar- og vinnuferli.

Sjá viðburð á Facebook.

Umsjón:
Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri | bókmenntaviðburðir
Miðlun og nýsköpun | Borgarbókasafnið, s. +354 411 6122
www.borgarbokasafn.is