Bókaspjall
Bókaspjall

Um þennan viðburð

Tími
14:00 - 15:00
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir alla
Bókmenntir

Bókaspjall í Gerðubergi

Sunnudagur 1. desember 2019

Bergur Ebbi, Bragi Páll, Díana Sjöfn og Soffía Bjarnadóttir lesa upp úr nýútgefnum skáldsögum sínum á kaffihúsi Borgarbókasafnsins í Gerðubergi. 

Rebekka Sif Stefánsdóttir bókmenntafræðingur mun stýra umræðum.

Austur er fyrsta skáldsaga Braga Páls og segir frá Eyvindi, félagslega einangruðum hagfræðingi á fertugsaldri. Í vonlausri leit Eyvindar að tilgangi sínum ferðast hann um hin þrjú dæmigerðu sögusvið íslenskrar sagnahefðar; borg, sjó og sveit, með óvæntum brekkum og beygjum.

Hunangsveiði eftir Soffíu Bjarnadóttur er munúðarfull saga um mörk siðferðis, dauða og endurfæðingu. Aðalsöguhetjan Silva Saudade er í ástarsambandi sem virðist vera að leysast upp en hún gengur með bréf frá löngu látinni ömmu sinni við brjóst sér.
Hún leitar til tengslafræðingsins Tómasar O. eftir aðstoð og saman halda þau í pílagrímsferð til Portúgal, ásamt rithöfundinum Rónaldi, þar sem veröld þeirra þriggja kaffærist í söknuði og dýrslegri þrá.

Skjáskot eftir Berg Ebba er magnað og upplýsandi ferðalag um mannshugann og áskoranir dagsins í dag. Bergur Ebbi spyr stórra spurninga og leitar svara í þessari snörpu, skörpu og lærdómsríku krufningu á vandamálum og þversögnum sem blasa við okkur öllum á degi hverjum. Fyrra leiðsögurit hans um nútímann, Stofuhiti, vakti mikla athygli.

Ólyfjan segir frá Snæja sem álítur lífið eitt stórt djók, eða að minnsta kosti sannfærir hann sjálfan sig um það. Með því hugarfari nálgast hann sambönd, fjármál og vinnu. Á tímum er hann sannfærður að hann hljóti að hálfgerður snillingur fyrir að finna upp á þvílíkri lífsspeki en á öðrum stundum læðist nagandi sjálfsefinn að honum.
Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur. Eitruð karlmennska, sjálfsmyndir, samfélagið og skáldsagnaformið eru leiðarstef í verkinu öllu.

 

Nánari upplýsingar um viðburðinn veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir deildarstjóri í Gerðubergi, s. 6980298
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is

 

Merki

Bækur og annað efni