Um þennan viðburð
Bókajól | Samtíminn í Grófinni
Bókajól á öllum söfnunum!
Taktu frí frá áreiti og neyslu og njóttu aðventunnar í faðmi nýútkominna bóka! Borgarbókasafnið býður upp á aðventuupplestra á öllum söfnum sínum, með mismunandi þema. Þrír höfundar lesa upp á hverjum stað og boðið er upp á kakó eða súpu, eftir því hvort lesið er upp í hádeginu eða eftirmiðdaginn. Hér er heildardagskrá viðburðaraðarinnar.
Í Grófinni er þemað Samtíminn
Dagskrá:
Sunna Dís Másdóttir - Kul
Þórdís Gísladóttir - Aðlögun
Halldór Armand Ásgeirsson - Mikilvægt rusl
Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn!
Boðið verður upp á heita súpu og nýbakað brauð.
Um bækurnar:
Kul: Una rambar á barmi kulnunar og er send vestur á firði í glænýtt úrræði, Kul. Þar dvelur hópur fólks í svartasta skammdeginu og reynir að horfast í augu við myrkrið innra með sér. Fyrir vestan sækir fortíðin á Unu og þegar hrikta fer í stoðum meðferðarinnar, og sjálfsmyndar Unu, tekur það sem hefur frosið fast innra með henni að losna úr læðingi.
Aðlögun: Sjötta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur. Aðlögun nær til þeirra eiginleika sem hafa þróast hjá lífverum og auka möguleika þeirra á að lifa af og fjölga sér í tilteknu umhverfi. Aðlögun getur tekið á sig ýmsar myndir, svo sem líkamlegar breytingar, hegðunarbreytingar eða breytt mynstur hringrásar lífsins.
Mikilvægt rusl: Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu? Meðan íslenskt þjóðfélag gengur af göflunum ráðast þeir frændur í að leysa ráðgátuna um nefið ásamt lúgustelpunni Zipo, Kötu bílasala, Diddu öskukellingu, fyrrverandi fangaverði ársins, og fleiri ógleymanlegum persónum.
Ekki láta þig vanta!
Nánari upplýsingar:
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
verkefnastjóri bókmennta