Velkomin!

Athugið að enn eru nokkrir hnökrar á vefnum sem við eigum eftir að lagfæra, þar má helst nefna leitarvirkni á smærri skjám og bókalistana, sem eru ekki aðgengilegir eins og er. Við kunnum afskaplega vel að meta hvers kyns endurgjöf og hvetjum notendur til að nýta þartilgerðan hnapp neðst í hægra horni vafragluggans til að láta vita af einhverju sem virðist ekki virka eins og það ætti að gera.

Á meðal þess sem við vildum gjarnan að væri betra er birting á bókakápum, en vegna þess að vefurinn tengist eldra kerfi eru margar myndir af bókakápum í mjög lágri upplausn. Tengingin við eldra kerfi veldur því einnig að birting á tímaritum er ansi ófullkomin. Hvort tveggja er eitthvað sem við vitum af og vonumst til að geta bætt í framtíðinni.

Velkomin á nýjan vef Borgarbókasafnsins

Með nýja vefnum er komið til móts við breyttar þarfir notenda og þjónusta við þá bætt til muna.

Nú geta notendur leitað á vefnum beint í öllum safnkosti okkar, skráð sig inn og nýtt sér sjálfsafgreiðslumöguleika til að taka frá titla, framlengja lán, fylgjast með því hvenær pantanir eru tilbúnar, borga sektir og kaupa eða endurnýja kortin sín.

Einnig er hægt að setja safnefni á lista sem þú getur sniðið að þínum þörfum og meira að segja deilt með vinum þínum. Ertu að fara að ferðast til Ítalíu? Þá viltu e.t.v. gera lista með ítalskri tónlist, ítölskum kvikmyndum eða bókmenntum og ítölskum uppskriftabókum. Svo geturðu auðvitað sett bækur sem þig langar að lesa á listann „Bækur sem mig langar að lesa“ sem allir nýir notendur fá. Listunum getur þú svo deilt með öðrum notendum en þeir birtast þá á síðunni undir flokknum „Innblástur“ þar sem öllum opnum listum er safnað saman. Þangað getur þú því einnig sótt þér innblástur í lista annarra notenda sem og starfsfólks Borgarbókasafnsins.

Innblástur og tillögur að safnefni er einmitt nokkuð sem er ansi fyrirferðarmikið á nýja vefnum, enda hafa notendur kallað eftir því. Þetta má sjá í efnisborðum sem birtast víða á vefnum, yfirleitt í samhengi við það efni sem er verið að skoða. 

Innskráning

Til að nýta flesta af nýju möguleikum vefsins þarft þú að skrá þig inn. Það er einfalt og fljótlegt.

Þú smellir á „Mínar síður“. Ef þú átt bókasafnskort hjá Borgarbókasafninu getur þú skráð þig inn með kennitölu eða GE númeri og PIN númeri kortsins þíns. Ef þú átt ekki bókasafnskort hjá Borgarbókasafninu getur þú skráð þig inn í gegnum island.is og keypt kort á vefnum. Þegar þú hefur skráð þig inn getur þú notað nýja möguleika vefsins til sjálfsafgreiðslu og séð yfirlit yfir útlán þín, frátektir þínar og sektir, auk bókalista. Á þínum síðum getur þú einnig breytt stillingum og meðal annars valið það safn sem þú vilt sækja frátektir á, breytt gildistíma frátekta og PIN númerinu þínu. Ef þú hefur gleymt þér og fengið sekt getur þú einnig greitt þær.

Bókalistar

Bókalistar eru meðal nýjunga á nýja vefnum okkar. Með tilkomu þeirra getur þú nú auðveldlega haldið utan um safnefni, til dæmis verk sem þig langar til að lesa, og gert lista fyrir mismunandi tegundir efnis. Þegar þú skráir þig fyrst inn er búið að gera tvo lista fyrir þig: „Bækur sem mig langar að lesa“ og „bækur sem ég hef lesið“.

Þú getur svo gert þína eigin lista, deilt þeim og skoðað lista annarra notenda.

Vefurinn er enn í þróun. Við munum breyta honum og bæta á komandi mánuðum til að gera upplifun notenda okkar enn betri, bæði á vefnum og inni á bókasöfnunum okkar líka. Velkomin á Borgarbókasafnið!