Tilraunaverkstæðið

Í boði á Tilraunaverkstæðinu

Í Gerðubergi má finna spennandi sköpunarrými sem kallast Tilraunaverkstæðið. Börn og fullorðnir hafa þar aðgang að ýmsum tækjum og tólum til að prófa sig áfram, skapa og uppgötva nýja hluti.

 

Hvað er í boði?

Hjá okkur eru Raspberry Pi tölvur, Makey Makey, LittleBits, 3D prentari og vínylskeri. Við bætum reglulega við nýjum tækjum og öðrum möguleikum til að skapa og ykkur er alltaf velkomið að kíkja til okkar til að sjá hvað er í boði.

Í tölvunum er hægt taka fyrstu skrefin í forritun, til dæmis í leiknum Scratch sem hentar yngstu börnunum vel. Einnig er hægt að læra grunnhugtök forritunar með því að forrita í Minecraft.

 

Hægt er að tengjast 3D prentaranum í gegnum tölvu á staðnum, en við hvetjum fólk til að stofna frían reikning og prófa sig áfram á Tinkercad.com til að skapa módel fyrir prentarann og koma með skjalið tilbúið. Best er að koma með .stl skjal á SD korti en einnig er hægt að vista skjalið á Tinkercad eða koma með USB lykil og opna í tölvunni á Tilraunaverkstæðinu. Aðgangur að 3D prentaranum er ókeypis en nauðsynlegt er að borga fyrir efnisnotkun. Við notum umhverfisvænna PLA plast sem er til í mörgum litum. Hljómar þetta of flókið? Kíkið á Fiktdaga og við útskýrum þetta allt á mannamáli!

Verðskrá fyrir 3D prentarann má finna í almennu gjaldskránni.

Það er hægt að sjá hversu mikið efni/tíma verkefnið kostar áður en prentarinn fer í gang með því að nota ókeypis forritið Cura annaðhvort heima hjá sér eða í tölvunni á bókasafninu. 

Í bígerð er að opna tónlistartilraunaverkstæði haustið 2019.  Fylgist með!

Rafknúnir ávextir

Má koma og prófa? Komið á Fiktdaga!

Öllum er frjálst að koma og fikta á Tilraunaverkstæðinu á afgreiðslutíma í Gerðubergi, svo fremi sem það er laust. Ef þið treystið ykkur ekki til að fikta alein þá hvetjum við ykkur til að koma og fá aðstoð í opnum tímum sem kallast Fiktdagar. Fylgist með viðburðadagatalinu okkar til að sjá upplýsingar um námskeið og Fiktdaga á Tilraunaverkstæðinu. 

Við höldum oft námskeið og smiðjur fyrir krakka á Tilraunaverkstæðinu í Gerðubergi og stundum færum við búnaðinn á milli safna til að halda smiðjur í öðrum menningarhúsum Borgarbókasafnsins. Slíkar smiðjur eru einnig auglýstar í viðburðadagatalinu okkar. Einnig er hægt að skrá sig á póstlistann til að fá tilkynningar um ný námskeið sem eru í boði.

 

Samstarf við Skema HR

Borgarbókasafnið vill leggja sitt af mörkum til að auka aðgengi að tækniþekkingu borgarbúa á öllum aldri, án tillits til stöðu eða efnahags. Við stöndum því reglulega fyrir fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn og unglinga í ýmiss konar forritun, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við samtökin Skema HR.

 

Hafðu samband

Sendið okkur línu á fiktadumeira@borgarbokasafn.is ef þið viljið vita meira.

 

Fyrir kennara

Almenningsbókasöfn víða um heim veita opinn aðgang að nútímatækni og tækjabúnaði. Þessi þjónusta gengur undir nafninu „makerspaces“ og vísar í opin sköpunarrými þar sem fólk er hvatt til að prófa sig áfram, skapa og uppgötva nýja hluti. Þannig stuðla bóksöfnin að auknu tæknilæsi með því að bjóða aðgengi barna og fullorðinna spennandi tækni og tækifærum. Einstaklingum er velkomið að koma á eigin vegum en einnig tökum við á móti skólahópum.

Bráðum verður hægt að skrá bekk í skólakynningu á Tilraunaverkstæðið í Gerðubergi.

 

Hugmyndafræðin

Með Tilraunaverkstæðinu er unnið að því að efla læsi fólks á stafrænum miðlum, með því að skapa vettvang og aðstöðu til að kynna nýja tækni og hugmyndir sem leiða til þekkingaröflunar. Tæknilæsi og forritun eru óðum að verða lykilþættir í menntun barna og fullorðinna, auk þess sem hugmyndafræði nýsköpunar nýtist á öllum sviðum. Borgarbókasafnið stefnir að því að verða skapandi samverurými sem styður þekkingaröflun á fjölbreyttan hátt. 

 

Aðstaða fyrir námskeið og skólaheimsóknir

Við bjóðum reglulega upp á námskeið og smiðjur í Tilraunaverkstæðinu í Gerðubergi. Sömuleiðis höfum við fært búnaðinn tímabundið á milli safna til þess að geta haldið námskeið í öðrum menningarhúsum okkar. 

Hefurðu áhuga í að halda vinnustofu eða námskeið hjá okkur? Hafðu samband við okkur á fiktadumeira@borgarbokasafn.is.

 

Kennarafræðsla

Við bendum á að samtökin Skema HR halda reglulega námskeið fyrir grunnskólakennara sem vilja auka þekkingu sína og nýta forritun í eigin starfi. Samtökin hafa þá hugsjón að öll börn skuli hafa greiðan aðgang að þeirri þekkingu sem forritun, tæknikunnátta og tæknilæsi felur í sér.

Sömuleiðis heldur Vísindasmiðja Háskóla Íslands ýmis konar kennarasmiðjur og bendum við áhugasömum að kanna úrvalið þar.