Þín eigin bókasafnsráðgáta | Skólaheimsóknir

Við bjóðum skólahópa velkomna á sýninguna Þín eigin bókasafnsráðgáta þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-11.  

Sýningin stendur til 30. apríl 2022. Sjá bókunarformið neðst á síðunni.

Í boði er leiðsögn um sýninguna og kynning á námsefni sem kennurum er velkomið að nota.
Kristjana Friðbjörnsdóttir og Ása Marin Hafsteinsdóttir námsgagnahöfundar skrifuðu og hönnuðu námsefni sem innblásið er af sýningunni. Við hvetjum kennara til þess að leysa Rithöfundarannsóknina annað hvort til að „hita upp“ fyrir heimsóknina eða til að vinna eftir á í skólastofunni.

Um námsefnið:
Fyrir miðstig grunnskóla.

Fyrirlögn:
Áætlaðar eru 160 mín (4 kennslustundir) í verkefnið.
Nemendur rannsaka dularfullt hvarf frægs rithöfundar, Ævars Þórs Benediktssonar. Sá birtir hjálparbeiðni á samfélagsmiðlum og biður um aðstoð við að finna sig. Nemendur ganga inn í ratleik sem byggir á því að lesa sig í gegnum vísbendingar og leysa þrautir sem leiða þau að lausn málsins. Þema verkefnisins eru íslenskar barnabækur, höfundar þeirra og þekktar sögupersónur. Í ratleiknum reynir á læsi, þrautalausnir, gagnrýna hugsun, grúsk og sköpun svo eitthvað sé nefnt.

Markmið: 

  • Að þjálfa læsi í víðum skilningi, auka orðaforða.
  • Að skoða hugtakið tungumál og hvernig það tengist lestri.
  • Að æfa margs konar læsi með ólíkum textategundum.
  • Að vekja áhuga á íslenskum bókmenntum.
  • Að þjálfa þau í að nýta bókasöfn til upplýsingaleitar.
  • Að efla jákvæða tengingu við bækur og lestur.
  • Að skoða bókina sem efnivið; frá uppruna til förgunar.
     

Í heimsókninni leiðum við nemendur um sýninguna og þeir fá einnig gott tækifæri til að kynnast því sem við höfum upp á að bjóða á bókasafninu og OKinu. Nemendur fá síðan boðskort með sér heim þar sem þeim er boðið ásamt fjölskyldum eða vinahópi að skrá sig í ratleikinn sem er í boði fyrir almenna gesti.

Hámarksfjöldi í hverjum hóp: 20 nemendur. Ef um stærri hópa er að ræða þarf að skipta hópnum upp. Leiðsögnin tekur um það bil 40 mínútur.

Boðið er upp á fríar rútuferðir fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar. Fyrstir koma, fyrstir fá!

Nánari upplýsingar:
Svanhildur Halla Haraldsdóttir, deildarbókavörður
svanhildur.halla.haraldsdottir@reykjavik.is | s. 411 6170