Auður Jónsdóttir
„Það einkenndi mig kannski þegar ég var yngri, að ég reyndi alltaf að lifa bækurnar sem ég las, eftir fremsta megni,“ segir Auður. „Á endanum fannst mér ég hálfvegis bara vera skáldsagnapersóna.“ Mynd / Saga Sig

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | „Þar með var ég dottin í það!“

Auður Jónsdóttir rithöfundur las svo mikið í æsku að það þurfti að fara með hana til læknis.

Þegar við heyrum í Auði í þeim tilgangi að grennslast fyrir um hvaða bækur hafi haft einna mest áhrif á hana um ævina segir Auður frá því í framhjáhlaupi að hún sé að lesa stórskemmtilega bók fyrir ungviðið á heimilinu.

„Já, ég er að lesa Baneitrað samband á Njálsgötunni eftir Auði Haralds fyrir ellefu ára son minn,“ upplýsir hún hress í bragði og segir að sér finnist það skemmtilega viðeigandi þar sem þau mæðginin búi  á Njálsgötunni.

„Þetta er brilljant bók,“ bætir hún við, „svo fyndin og tungutakið svo kjarnað og lifandi. Og gaman að miðla því til hans.“

Er mikið lesið á heimilinu?

„Já.“

Hvað þá helst?

„Bara tilviljanakennt. Það sem kveikir áhuga eða forvitni eða bara liggur þarna einhvers staðar.“

Auður tekur fram að reyndar sé ekki alveg eins mikið lesið núna á heimilinu og bara fyrir örfáum árum. „Síðustu árin hefur verið svo sturlað mikið að gera hjá mér að ég hef lesið minna en vanalega,“ útskýrir hún. „En það þurfti að fara með mig til læknis þegar ég var barn því ég bara lá og las og las og las ... og gleypti í mig bókasafnið í Mosó og líka bókaskápana bæði heima og hjá ömmu.“ Hún hlær við tilhugsunina.

Auður þakkar einmitt þessari ömmu sinni fyrir að hafa tekist að glæða lestraráhuga sinn í æsku. „Þegar ég var fimm ára kenndi hún mér að lesa þegar ég var í pössun á morgnana - og þar með var ég dottin í það!“

Það er auðheyrilegt að amman umrædda hefur verið mikill áhrifavaldur í lífi Auðar.

„Já og seinna sagði amma mér að hún hefði hitt Einar Kárason í kokteilboði og ég var svo hrifin af Djöflaeyjunni að mér leið eins og hún hefði hitt George Michael. Ég reyndi stöðugt að lifa Djöflaeyjuna, fór með rútunni í bæinn að leita að þessu fólki eða bara samskonar fólki sem ég gæti skrifað um.“

Þannig að Auður er og hefur alltaf verið mikill lestrarhestur?

„Já, ég er það,“ svarar hún glaðlega.

Hvers konar bækur heilla helst?

„Allar bækur. Ég er alæta, eins og svín, á bækur.“

Og hvernig er að endurnýja kynnin við bók eins og Baneitrað samband á Njálsgötunni?

„Það er í alla staði gott. Eins og að heimsækja einhvern stað í sjálfum sér. Hluta af sér eða löngu liðið tímabil.“

Og þá komum við aftur að upphafsspurningunni: Hvaða bækur hafa haft einna mest áhrif á Auði um ævina?

Ævintýrabækur Enid Blyton

„Fyrsta bókin sem breytti lífi mínu var Ævintýraeyjan og reyndar líka Ævintýrasirkusinn eftir Enid Blyton,“ svarar hún. „Mig langaði að lifa eins og krakkarnir í þessum bókum og var stöðugt að flækjast út í Mosfellsdalnum að leita að ímynduðum glæpamönnum með kökur í vasanum úr frystinum hjá ömmu minni. Mig dreymdi líka um að vera eins og Georg eða Georgína í Fimmmenninga-bókunum eftir sama höfund, vera smá strákur þó að ég væri stelpa. Ætli leyfi ekki af því ennþá.“

Salka Valka eftir Halldór Laxness

Salka Valka hafði heilmikil áhrif á mig á unglingsárunum, þó að það sé smá hallærislegt fyrir mig að segja það, þar sem höfundurinn var móðurafi minn í næsta húsi, HKL,“ segir Auður. „En hún hafði svo mikil áhrif að átján ára flutti ég til Flateyrar og fékk mér hund og fór að vinna í fiski til að vera Salka, kannski smá eins og ég hafði viljað vera Georgína eða Georg í Fimmenninga-bókunum, enda báðar stelpur í buxum, með strák í sér. En Salka, burt frá ætterni mínu séð, lifir alltaf í manni, eins og skrýtinn ættingi, og minnir á sig með reglulega millibili. Ég vildi svo mikið vera hún, og það einkenndi mig kannski þegar ég var yngri, að ég reyndi alltaf að lifa bækurnar sem ég las, eftir fremsta megni. Á endanum fannst mér ég hálfvegis bara vera skáldsagnapersóna.“

Meistarinn og Margaríta eftir Mikahíl Búlgakov og Hundrað ára einsemd eftir G.G. Gabriel García Márquez

„Hér nefni ég tvær bækur sem höfðu áhrif á unglingsárunum,“ tekur Auður fram, áður en haldið er áfram. „Það voru Meistarinn og Margaríta eftir Mikahíl Búlgakov og Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez.

Báðar þessar bækur voru gefnar út í fagurbókmenntaklúbbi Máls og menningar í frábærum þýðingum, og sökum fámennis á Íslandi höfðu þær mikil áhrif á að minnsta kosti tvær kynslóðir höfunda hér á landi. Allir í kringum mann höfðu lesið þær og allir vildu hafa skrifað þær. Svona tótal-skáldsögur!

Löngu síðar í Kaupmannahöfn sagði ég útgefanda mínum þar frá áhrifunum sem skáldsagan Meistarinn og Margaríta hafði á samfélagið heima og honum fannst þetta ótrúlegt, að ein góð þýðing gæti haft önnur eins áhrif á kynslóðir skrifandi fólks og bara á ungmenni. Þá var bókin ekki í augnablikinu fáanleg þar en hefur verið gefin út síðan.“

The Vegetarian eftir Han Khan

„Þessi bók kom fyrst út í Suður-Kóreu en mörgum árum síðar, held ég, í Bretlandi og fékk þá Man Booker verðlaunin. Þá sló hún í gegn alþjóðlega. Ég las um hana og pantaði hana strax. Og hún virkilega hristi upp í mér á margslunginn hátt. Bæði út af uppbyggingunni en líka út af hugarheiminum og bara ... frumleikanum. Þessi bók er til á íslensku og höfundur hefur komið hingað á bókmenntahátíð. Ég breytti matarsiðum mínum eftir lesturinn og fór að borða öðruvísi en áður, auk þess sem líf mitt, nokkuð óvænt, breyttist töluvert í kjölfarið en þær breytingar tengi ég oft við lestur bókarinnar.“

Etýður í snjó eftir Yoko Tawada

„Síðasta bók sem hafði mikil áhrif á mig var Etýður í snjó eftir Yoko Tawada sem skrifar jöfnum höndum á japönsku og þýsku. Það er skáldævisaga ísbirnu sem lifir mjög svo alþjóðlegu og æsilegu lífi, en bókin kemur inn á ófáa aktúel fleti í nútímamenningu í gegnum augu ísbjarnar. Þessi bók hafði álíka áhrif og þegar ég las Meistarann og Margarítu í fyrsta skipti. Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi hana. Raunar minnir mig að hún hafi líka þýtt bók sem hafði gríðarleg áhrif á mig á sínum tíma og ég las reyndar á ensku en það er bókin Never let me go, eftir Kazuo Ishiguro. Þá bók las ég í sömu vikunni og The Handmaid's Tale eftir Margaret Atwood, mig minnir árið 2004, og þessar bækur breyttu mér til frambúðar.“