Samfélagshús í þínu hverfi | Opið samtal
Hvernig vinnum við gegn félagslegri einangrun og sköpum vettvang sem tengir fólk saman? Á síðustu árum hafa orðið breytingar á þeim samkomustöðum sem félagsstarf aldraðra fer fram. Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða þróar samfélagshús en markmið þeirra er að efla félagslega virkni og skapa samkomustað með fjölbreyttu félags- og tómstundastarf óháð aldri og búsetu, rétt eins og bókasafnið.
Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Drífa Baldursdóttir og Sirí Gísladóttir tóku þátt í opnu samtali um breytingar sem hafa orðið á félagsstarfi og um samfélagshús sem vettvang sem er opið öllum. Nú eru til staðar samfélagshús á Vitatorgi, Aflagranda 40 og Bólastaðahlíð 43. Stöðugt er unnið að tengingu við nýja aðila sem vilja nýta rýmið með breyttum hætti og tengjast fólkinu í hverfinu. Hugmyndir um staði eru lífseigar og vitundarvakning meðal almennings um slíkar breytingar tekur tíma. Rétt eins og bókasafnið, þá kemur það fólki enn á óvart að hér eigi ekki bara að ríkja þögn, heldur sé þetta einmitt staður sem kemur á óvart með ýmsum viðburðum, tækniaðstöðu og klúbbastarfi.
Opið rými allra er yfirskrift stefnu Borgarbókasafnsins og deilum við markmiði með samfélagshúsum um að skapa vettvang, þar sem allir geta komið á eigin forsendum - hér er ekki verið að rýna í bakpokann. Við viljum gjarnan að fagfólk geti nýtt rýmið til að hitta samstarfsaðila og skjólstæðinga í umhverfi sem ýtir undir uppbyggileg samskipti og jafnar aðstöðumun fólks hvað varðar aðgengi að þjónustu og upplýsingum. Fyrstu skrefin eru oft að draga frá gluggatjöldunum og veita innsýn inn í starfið. Næsta skref er svo að fá fólk til að stíga inn fyrir, sem hefði ekki haldið að þetta væri rými fyrir sig. Þá fyrst verður mögulegt að skapa ný tengsl milli fólks. En hvað er það sem ræður því að við viljum deila og eiga hlutdeild í stað? Er það góður matur, kaffihúsastemning eða áhugamálið sem dregur að eða hreinlega fólkið á staðnum? Við erum enn að prófa okkur áfram og opin fyrir nýjum hugmyndum.
Við þökkum kærlega fyrir samtalið og hlökkum til frekara samstarfs til að efla borgina okkar sem fjölbreyttan vettvang til að tengjast öðrum.
Opið samtal, hvað er það? Umræðuvettvangur um málefni tengd réttindum, aðgengi og þátttöku í samfélaginu. Dagskráin í heild.
Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is