Mynd fengin á vigdis.is
Mynd fengin á vigdis.is

Vigdís Finnbogadóttir níræð

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti lýðveldisins, fangar nú níræðisafmæli og óskar Borgarbókasafnið henni innilega til hamingju með daginn.

 

Vigdís Finnbogadóttir var fjórði forseti Íslands og gegndi embættinu frá 1980 til 1996. Eins og frægt er orðið var hún fyrsti lýðræðislega kjörni kvenþjóðhöfðingi heimsins og hefur þannig verið stúlkum og konum innblástur og fyrirmynd allar götur síðan.

 

"Tungumál eru lykillin að heiminum"

Í forsetatíð sinni lagði Vigdís meða annars áherslu á að kynna land og þjóð á erlendri grundu og þá sérstaklega íslenskt handverk, menningu og listir sem og íslenska matargerð. Einnig áttu landvernd og skógrækt hug hennar allan og síðast en ekki síst íslensk tunga en Vigdís hefur alltaf verið sérlega áhugamanneskja um tungumál og kenndi frönsku um árabil við Menntaskólann í Reykjavík. Sjálf nam hún enda frönsku og franskar bókmenntir við háskólann í Grenoble og við Sorbonne í París í Frakklandi. Vigdís hefur ítrekað mikilvægi þess að fólk hlúi að eigin móðurmáli en ekki síður hversu dýrmætt sé að læra önnur tungumál og höfð er eftir henni setningin:  „Tungumál eru lykillinn að heiminum.“ Árið 1999 var hún gerð að velgjörðasendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í tungumálum og er þar með fyrsti og eini talsmaður tungumála á heimsvísu.

Árið 2001 fékk Stofnun í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands leyfi til að kenna sig við Vigdísi og heitir í dag Stofnun Vigídsar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Stofnuninni er ætlað að efla rannsóknir og kennslu í erlendum tungumálum og vekja athygli á miklvægi tungumálakunnáttu og menningarlæsis á öllum sviðum, eins og stendur á heimasíðu stofnunarinnar. Árið 2016 reis svo við Háskóla Íslands, Veröld – hús Vigdísar, sem hýsir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Vigdísarstofnun sem er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og er starfrækt með samkomulagi íslenskra stjórnvalda og UNESCO Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í Veröld eru kennslustofur og skrifstofur  auk þess sem þar eru haldnar ráðstefnur, menningar- og listviðburðir sem varða tungumál og menningu.

 

Mannréttindi, menning og friður

Eftir að hún lét af störfum sem forseti hefur Vigdís veitt fjölmörgum málum brautargengi – einkum þeim er tengjast landvernd, tungumálum og menningu. Einnig stofnaði hún, árið 1997, Heimsráð kvenleiðtoga eða Concil of Women World Leaders við John F. Kennedy School of Government við Harward Háskóla. Vigdís var sjálf formaður í ráðinu á upphafsárum þess en í ráðinu sitja fyrrverandi og núverandi forsetar og forsetisráðherrar frá öllum heimshornum. Þá á hún sæti í fjölmörgum ráðum, starfandi um heim allan, sem eiga það sameiginlegt að stuðla að mannréttindum, menningu og friði.

 

Bækur sem tengjast Vigdísi

Fjórar ævisögur Vigdísar hafa litið dagsins ljós á Íslandi, nú síðast barnabókin Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann eftir rit- og myndhöfundinn Rán Flygenring og þá hefur Vigdís sjálf ritað inngangsorð og formála fjölda bóka. Hér að neðan má sjá úrval bóka sem Vigdís hefur komið að.

Ný sýning um ævi og áhrif Vigdísar 

Í september 2020 verður opnuð ný sýning í Gerðubergi sem fjallar um ævi og áhrif Vigdísar. Sýningin byggir á áðurnefndri barnabók; Vigdís, bókin um fyrsta konuforsetann. Embla Vigfúsdóttir sér um sýningarstjórn og framleiðslu sýningarinnar í samstarfi við Rán Flygenring.

Borgarbókasafnið leitar að sögum af Vigdísi

Nú leitum við til allra þeirra sem eiga minningar um Vigdísi, hvort sem það var áður en hún tók við embætti, sem forseti eða eftir að hún lét af störfum. Smelltu hér til að senda inn þínar minningar. 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 10. júní, 2020 12:57
Materials