Smátextar | Lífsbrot

Lífsbrot

Ráðskona óskast í sveit. Þetta var upphafið á þessu öllu saman. Svona byrjaði þetta. Ég sá auglýsinguna um leið og ég fletti yfir á síðuna í blaðinu. Þótt þetta sé klisja, þá vissi ég strax að starfið var mitt, auglýsingin var ætluð mér og eingöngu mér. Ég sendi inn umsókn samdægurs.

Ég man enn eftir því þegar ég hitti hann í fyrsta skiptið. Við höfðum skrifast á í nokkra mánuði en nú var komið að því. Rútan stoppaði við þjóðveginn, rétt hjá afleggjaranum að bænum, og ég stóð í vegarkantinum og horfði á eftir henni spúa upp rykmekki um leið og hún ók í burtu. Ég greip töskuna mína og gekk í átt að bænum. Þetta var ekki langur spotti en hvergi var neinn að sjá nema nokkur dýr, enda eðlilegt þar sem bóndabærinn var sjálfbær. Hann hafði sagt mér að ganga inn án þess að banka en ég dokaði við áður en ég gerði það, snéri mér við og virti fyrir mér útsýnið sem ég átti von á að yrði mitt næstu árin. Svo opnaði ég dyrnar og gekk inn. Ég gleymi aldrei brosinu sem færðist yfir andlit hans þegar hann sá mig í fyrsta sinn. Og hann var svo fallegur.

Ég kveð síðasta gestinn og geng inn aftur. Ég lít yfir stofuna og andvarpa. Svo hefst ég handa við að ganga frá. Þetta var ekki stór erfidrykkja, hann átti fáa vini og margir sniðgengu okkur í sveitinni. En hann erfði það aldrei við mig. Og ég ekki við hann. Hann var mér nóg, ég þurfti engan annan, ekkert annað. Hann var líf mitt, yndi og alheimur. Í dag er ég einn, en mér er sama. Ég er enn ráðskonan hans.

Höfundur: Sigurður Haraldsson

Næsti smátexti: Feðgar