Smátextar | Daglegt brauð

Daglegt brauð

James var enn í fersku minni sá dagur þegar hann ákvað að baka brauð á hverjum degi það sem eftir væri ævinnar og færa prestinum í þorpinu. Það var á tuttugasta og fimmta afmælisdaginn fyrir þrjátíu árum, 26. júní 1940. Þá geisaði styrjöldin með öllum sínum eyðileggingarmætti og setti svip sinn á andrúmsloftið í þorpinu. Aldrei hafði hann grunað að hermennirnir myndu vaða yfir litla þorpið á skítugum skónum. Þorpsbúarnir voru berskjaldaðir. Þetta var mannanna verk. James stóð sorgbitinn í kirkjugarðinum í útjaðri þorpsins og andvarpaði þungt. Það var erfitt að halda áfram lífsgöngunni í þessu tilgangsleysi. Þorpið var rjúkandi rúst. Hann fylltist vonleysi þegar hann horfði yfir kirkjugarðinn. Þar hvíldu mæðurnar sem trúðu á framtíðina sem aldrei varð. Saklaus börnin sem voru skotin niður þegar þau léku sér brosandi í boltaleik á torginu og feðurnir sem trúðu á málstaðinn. Tilgangslaus málstaður sem endaði í blóðbaði. Þar hvíldi ástkona hans og sonur þeirra, Thomas. Söknuðurinn var nístandi. Af hverju tóku þau mig ekki?  Þá birtist honum allt í einu þrefaldur regnbogi yfir þorpinu. Þvílík sýn. Hann hafði aldrei séð annað eins náttúrufyrirbæri. Innra með honum kviknaði vonarneisti. Uppgjöf var ekki leiðin fram á við. Ástvinirnir sem hvíldu í kirkjugarðinum áttu meira og betra skilið en uppgjöf eftirlifenda. Hann vildi ekki að ljótleikinn yrði grafinn í nafnlausri gröf. Það þurfti að endurreisa þorpið og hann var einn af þeim útvöldu.  

James lét ekki deigan síga. Frá þessum degi vaknaði hann á hverjum morgni og hófst handa við að baka brauð. Fyrstu árin var hveiti af skornum skammti. Þá þurfti útsjónarsemi. Hann notaði bygg og rúg og aðrar korntegundir og bætti stundum sagi í deigið til að geta lokið morgunverkinu. Svona var stríðsbrauðið. Presturinn tók honum alltaf opnum örmum. James fann sælutilfinningu streyma um líkama sinn í hvert sinn sem hann færði prestinum gjöf. Árin liðu. Tíu þúsund níuhundruð og fimmtíu brauð. Æviverkið hans. Gleðin við að gefa fyllti smám saman upp í auðnina í hjarta hans. Það var gott að geta glatt aðra. Nú þurfti ekki lengur að spara hveitið. Nú var þorpið orðið heilt á ný. Nú gátu börnin leikið sér frjálst á torginu. Framtíðin var þeirra. 

Deigið var búið að hefast í klukkutíma á slitnu borðplötunni. Það var létt og loftmikið. Svona átti það að vera. Lífsreyndur bakari veit hvað hann syngur. Geislar morgunsólarinnar bárust inn um eldhúsgluggann. James hugsaði hlýtt til Mary og Thomas. Guð hvað hann saknaði þeirra. Hann lygndi aftur augunum umvafinn glitrandi hveitiskýi. Nú var hlutverki hans lokið. 

Höfundur: Dagmar Kristinsdóttir

Næsti smátexti: Skósparnaður