Smátextar | Skósparnaður

Skósparnaður

Kleópatra Líf mætti á hverjum degi í vinnuna í nýjum skóm. Hún kom eins og ferskur andblær inn á vinnustað sem var fastur í gömlu hjólfari. Skósafnið varð fljótt aðalumræðuefnið á kaffistofunni, enda var það bæði vandað og óvenjulegt. Það virkaði á mig eins og kærkomin vítamínsprauta. Í langan tíma hafði ég notað sömu taktlausu hreyfingarnar þegar ég tæmdi ruslatunnurnar, skúraði gólfin og þurrkaði rykið. En núna fann ég fyrir ólýsanlegri löngun til að breyta um takt, þökk sé litríka skósafninu. Kleópatra Líf var vonarglætan mín. 

Þrúði aðalbókara, sem hafði unnið á skrifstofunni í hartnær 30 ár og fannst hún eiga einkarétt á vali á umræðuefni á kaffistofunni, líkaði ekki þetta nýja stef í vinnustaðarmenningunni. Það var í hrópandi andstöðu við viðhorf hennar um mikilvægi formfestu. Í stað þess að láta smitast af uppátækjasemi nýja vinnufélagans og magna hinn jákvæða anda sem var í þann mund að fæðast á vinnustaðnum, fór Þrúður að safna stuðningsmönnum. Hún kom fljótt auga á þrjár nöðrur sem flissuðu með henni að skósafninu. Mánuðurnir liðu en alltaf hélt Kleópatra Líf sínu striki. Hún lét ekki truntulegt viðmót Þrúðar draga úr sér kjarkinn. Svo kom kreppan eins og gjöf frá himnum. Þá gat Þrúður andað léttar. Kleópatra Líf fékk uppsagnarbréf vegna lágs starfsaldurs og vinnustaðurinn fór aftur í sitt gamla horf. 

Ég missti kjarkinn til að halda áfram í nýja taktinum. Á rigningardegi, þegar tilveran var grámygluleg, hitti ég Kleópötru Líf í Kolaportinu. Hún var að selja skóna sína. Snilldin ein. Aldrei hefði Þrúður haft hugmyndaflug í svona lagað. Kleópatra Líf fjárfesti í vönduðum skófatnaði sem viðskiptavinirnir kunnu að meta. Ég flýtti mér að kaupa af henni rauðu skóna þó að þeir væru einu númeri of litlir. Ég man hvað þeir fóru fyrir brjóstið á Þrúði. Á mánudegi mætti ég hnarreist í vinnuna í rauðu skónum og sagði upp starfi mínu sem ræstitæknir við dvalarheimilið Blómagarð. 

Höfundur: Dagmar Kristinsdóttir

Næsti smátexti: Afskipt