Um þennan viðburð
Jólabókakaffi á degi íslenskrar tungu
Jólabókaflóðið byrjar á Borgarbóksafninu í Kringlunni á degi íslenskrar tungu með upplestri fjögurra höfunda. Eva Rún Snorradóttir, Eva Björg Ægisdóttir, Hallgrímur Helgason og Nanna Rögnvaldardóttir lesa úr brakandi nýjum bókum sínum á ástkæra ylhýra.
Eva Rún Snorradóttir gefur út sína fyrstu skáldsögu, Eldri Konur, en hún hefur áður gefið út smásögur og ljóð og hlaut Maístjörnuna fyrir Fræ sem frjóvga myrkrið árið 2019. Eva Björg Ægisdóttir hefur slegið í gegn með glæpasögum sínum sem gerast á Akranesi og nýjasta viðbótin er Kvöldið sem hún hvarf, en hún hlaut blóðdropann fyrir síðustu bók sína, Heim fyrir myrkur. Hallgrímur Helgason er þrefaldur handhafi bókmenntaverðlauna Íslands, þar á meðal fyrir Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum árið 2018 og 2021 og nú er síðasta bókin í þeim þríleik á leiðinni, Sextíu kíló af sunnudögum. Nanna Rögnvaldardóttir er þjóðþekkt fyrir matreiðslubækur sínar og fyrsta skáldsaga hennar Valskan vakti mikla lukku í fyrra. Nú fylgir hún henni eftir með annarri sögulegri skáldsögu, Þegar sannleikurinn sefur.
Öll velkomin.
Nánari upplýsingar veitir:
Guttormur Þorsteinsson, sérfræðingur
guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is | s. 411 6204
Hólmfríður María Bjarnardóttir, sérfræðingur
holmfridur.maria.bjarnardottir@reykjavik.is | s. 411 6202