Fríða Ísberg, Sigrún Pálsdóttir, Sölvi Björn Sigurðsson, Kristín Ómarsdóttir

SKÁLDSKAPUR að vori frá liðnum vetri

Veisla var haldin á bókakaffi í Gerðubergi að vori með skáldskap frá liðnum vetri. Fjórir fjölhæfir verðlaunahöfundar sögðu frá tilurð skáldverka sinna, frá hráum hugmyndum og hvaða leið skáldskapurinn rataði, hvað var hlustað á við skriftir, um þessa ljómandi leiðslu sem er um leið sársaukafull, um glímuna við formið og leiðina áfram í skrifum og komandi sumri.

Rithöfundarnir Fríða Ísberg, Kristín Ómarsdóttir, Sölvi Björn Sigurðsson og Sigrún Pálsdóttir ræddu skáldskapinn og lásu brot úr verkum sínum.

 

Fríða Ísberg er fædd árið 1992. Hún lauk grunnprófi í heimspeki og meistaraprófi í ritlist við Háskóla Íslands. Slitförin er fyrsta ljóðabók Fríðu og fékk handritið nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta. Önnur bók Fríðu, Kláði, er smásagnasafn sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlauna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020. Í byrjun árs 2022 hlaut Fríða Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2021.

Fríða er hluti af sex kvenna skáldahópi sem kallar sig Svikaskáld. Saman hafa þær gefið út þrjár ljóðabækur og skáldsöguna Olíu, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Á bókakaffi sagði Fríða frá sinni fyrstu skáldsögu sem ber heitið: Merking  en verkið  hlaut bæði Bóksalaverðlaunin og Fjöruverðlaunin í ár.

Um Merkingu eftir Fríðu Ísberg:

Skáldsagan Merking er margradda verk sem fjallar um afstöðu og pólaríseringu, fordóma og samkennd. Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til samkenndarprófsins, byltingarkenndrar tækni sem spáð getur fyrir um andfélagslega hegðun; annar helmingurinn vill öruggara samfélag, hinn vill réttlátt samfélag. Aðalpersónur sögunnar hafa öll þurft að laga sig að nýjum siðferðisgrundvelli samfélagsins og fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla sem sker úr um hvort fólki verði gert skylt að gangast undir prófin.

 

Sölvi Björn Sigurðsson er fæddur árið 1978. Hann lærði frönsku í Montpellier og París og lauk BA-prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, og meistaraprófi í útgáfufræðum frá Stirling háskóla í Skotlandi. Sölvi hefur gefið út ljóð og skáldsögur og er einnig mikilvirkur þýðandi, hefur m.a. þýtt stórskáld eins og William Shakespeare, John Keats og Arthur Rimbaud. Hann hlaut m.a. tilnefningu til Menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir þýðingu á Árstíð í helvíti og síðar tilnefningu til Íslensku þýðingarverðlaunanna ásamt Sigurði Pálssyni fyrir Uppljómanir & Árstíð í helvíti. Sölvi hefur gefið út fjölda skáldsagna og einnig söguljóðið Gleðileikurinn djöfullegi, með tilvísun í Dante. Sölvi hlaut verðlaun fyrir ritstörf úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2016 og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2019 fyrir skáldverkið Selta -Apókrýfa úr ævi landlæknis. 

Á bókakaffi sagði Sölvi frá nýjasta verki sínu, sjöunda í röðinni, sem ber heitið: Kóperníka: Skáldsaga um morð, ást og viðurstyggð – en verkið er söguleg spennusaga.


Um Kóperníku eftir Sölva Björn Sigurðsson
Kaupmannahöfn 1888. Raðmorðingi gengur laus og börn hverfa unnvörpum. Kóperníkus, íslenskur unglæknir, er rekinn frá störfum og rannsakar nú lát besta vinar síns. Hann grunar fyrrverandi samstarfsfólk sitt á spítalanum um græsku en niðurstaðan virðist ekki í augsýn.

Í upphafi sögu er tilvísun í Hannes Pétursson:

Á kvöldin undir kveiktu tungli og stjörnum
koma þeir heim af ökrunum. Lágan óm
ber vindur frá klukku er álútu höfði og hljóðir
halda þeir stíginn hjá veðruðum róðukrossi
með feðranna gömlu, gnúðu amboð á herðum
en glaðir að allt skuli bundið svo föstum skorðum:
sjá, þarna tungl og vindur, hér vegur og blóm.
Þeir vita´ekki að hann heilsar þeim oft á daginn
hjó þessi jörð af feyskinni rót – og henti
sem litlum steini langt út í myrkur og tóm.

 

Sigrún Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 1967. Hún lauk doktorsprófi í hugmyndasögu frá University of Oxford árið 2001. Að námi loknu stundaði hún rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands en frá árinu 2007 hefur hún verið sjálfstætt starfandi. Fyrstu tvær bækur hennar eru byggðar á sagnfræðilegum heimildum. Eftir það hefur hún skrifað þrjár skáldsögur og hafa allar bækur hennar verið tilnefndar til ýmissa verðlauna; Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin, Viðurkenning Hagþenkis, Menningarverðlaun DV. Fyrir skáldsöguna Delluferðin hlaut Sigrún Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2021.

Nýjasta verk Sigrúnar kallast Dyngja sem hún fjallaði um og las upp úr á bókakaffi.


Um Dyngju eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Hvað leynist bak við bláan einkennisbúning og silkislæðu, sólbrúna húð og rauðlakkaðar neglur? Dauð rödd söguhetjunnar býður þér að kaupa tollfrjálsan varning og þegar þú afþakkar boðið heldur hún áfram ganginn með þennan klunnalega en vellyktandi vagn á undan sér. Hægt í átt að ljósinu og endalokum þeirrar undraverðu sögu sem nefnd hefur verið Dyngja. Hún hófst um miðbik 20. aldar á litlum bæ við rætur Ódáðahrauns og þaðan barst hún lengra inn í landið; frá hálendi Íslands út í geim og að lokum til tunglsins.

Bókin er tileinkuð minningu móður höfundarins.

 

Kristín Ómarsdóttir er fædd 1962 í Reykjavík. Hún  hefur skrifað öll form skáldskapar í yfir 30 ár, fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun, og einnig myndlist og unnið á þverfaglegum mærum lista. Kristín hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín,  má þar nefna skáldsöguna Elskan mín ég dey sem var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 en sú skáldsaga fékk jafnframt Menningarverðlaun DV. Leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna og Margrét mikla til norrænu útvarpsleikritaverðlauna. Árið 2005 hlaut Kristín Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008 og 2018 hlaut hún Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Kóngulær í sýningargluggum, en sú bók var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sem og Menningarverðlauna DV. Á þessu ári verður skáldsagan Svanafólkið gefin út í enskri þýðingu í Bandaríkjunum. Þess má einnig geta að árið 2020 var gefið út mjög veglegt Ljóðasafn með öllum ljóðabókum Kristínar, verulega falleg og eiguleg bók.

Á bókakaffi sagði Kristín frá nýjasta verki sínu Borg bróður míns, sem er smásagnasafn sem kom út árið 2021.


Um Borg bróður míns eftir Kristínu Ómarsdóttur

Um hömlur og auðmýkt, kröfur og uppgjöf, sveigjanleika, orðleysi og vanmátt og veiklunda hugrekki, sögurnar gerast meira og minna í borg - sem má þekkja og ímynda sér - inn í minnstu einingum borgar: herbergjum og eldhúsum og stofum og í fjörum og kirkjugörðum og á víðavangi. Þetta er óbeint framhald Einu sinni sagna, sem samið var af tvölfalt yngri höfundi.

Ef þú prjónar mér peysu með þverlöngum gulum röndum (eða röddum) undir rauðum stjörnum (eða tjörn) á ljósbláum himni lofa ég að fara ekki svona mikið út á kvöldin …
Þessa setningu er ekki að finna hér, hún hangir bara í loftinu, einsog orðin sem voru tínd ofan í þessa bók – á meðan heimar lágu í kófi? Hér er safn sagna – skyndimynda – skjáskota – brota – sem K (skrifaði og) safnaði saman.
Staðsetning: nálæg borg, borg í fjarska, hvergi.
Tími: núna?

Kristín tileinkar bókina vinkonu sinni Álfrúnu Gunnlaugsdóttur rithöfundi sem lést á síðasta ári. 

Viðburðurinn var einnig í streymi af Facebook síðu Borgarbókasafnsins.

Hér að neðan gefur að líta brot af gersemum þessa margverðlaunuðu höfunda sem finna má á Borgarbókasafninu.

 

Upplýsingar um höfunda og verk eru m.a. fengnar af Bókmenntavefnum, Skáld.is, Ruv.is, Wikipediu og á vef útgefenda höfundanna.

 

 

 

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 15:08
Materials