KONA - KVÁR - KARL

Hán er svangt

Hún er svöng

Hann er svangur


Borgarbókasafnið hefur fengið Regnbogavottun Reykjavíkurborgar á öllum sjö söfnum borgarinnar. Til þess að fá vottunina þarf starfsfólk að taka þátt í fræðslu um hinsegin málefni og rýna þjónustuna sem veitt er á starfsstaðnum. Þetta á jafnt við um innra sem ytra starf, samstarf á vinnustað, þjónustu við viðskiptavini, merkingar í húsnæði, myndefni, sýnileika, orðanotkun og hvernig við notum tungumálið, fagurfræði, bókmenntir, listir. 

Gerum við ráð fyrir því að manneskja sé í ákveðnum hóp t.d. út frá útliti hennar og/eða hugmyndum okkar?  Að hér sé kona sem sé ávörpuð hún og að hún sé þá gagnkynhneigð og eigi maka sem er karl?

Íslenskan er nokkuð kynjað tungumál og því er mikilvægt að færa hugsun og þar með tungumálið úr gamalgrónu fari og jafnvel hlekkjum. Það er því gott að byrja á að huga að því hvernig við tölum saman dags daglega og mikilvægt að vanda sig og kannski æfa sig ef þess gerist þörf. Þó að við breytum ekki hugarfari eingöngu með orðanotkun og nýjum hugtökum þá er það stórt og mikilvægt skref að samþykki. Allur sýnileiki er mikilvægur, að hverri og einni manneskju sé sýnd virðing og viðurkennd. Öll viljum við vera samþykkt; að kyn okkar, kynvitund, kynhneigð, kyntjáning sé samþykkt og við séum ekki útilokuð frá umræðu. Við eigum öll rétt á að tilheyra. Það getur sært manneskju og verið útilokandi að vera ávörpuð í röngu kyni, t.d. talað við manneskjuna endurtekið sem karl þegar manneskjan er kvár og vill vera ávörpað sem hán, eða að gera til dæmis ósjálfrátt ráð fyrir að foreldrar barns séu af sitthvoru kyni, mamma og pabbi.

Dæmi um hugleiðingar á fræðslufundinum var t.d. sá munur á að vera sís og trans. Sís (cis-gender) er lýsingarorð yfir það að vera sískynja og notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Trans er heiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Undir trans fellur bæði kynsegin fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins, en trans á einnig við um trans karla og trans konur, bæði um fólk sem fer í leiðréttingaraðgerð og einnig fólk sem fer ekki í aðgerðir. Kynsegin fólk er fjölbreyttur hópur, sumt fólk kýs að nota kynhlutlaust persónufornafn á borð við hán í staðinn fyrir hann eða hún, t.d. ég er svangt. Annað kynsegin fólk notar hann eða hún, ég er svöng/svangur, það er persónulegt val hvers og eins.

Sláandi hugleiðingar varðandi sís vs. trans, fáein dæmi:

Ég get notað almenningsklósett án þess að óttast að verða fyrir áreitni eða vera ógnað.

Fólk gerir ekki ráð fyrir að það meigi spyrja mig hvernig kynfæri mín líta út eða hvernig ég stunda kynlíf.

Fólk notar ekki óviðeigandi persónufornöfn eða rangt málfræðilegt kyn um mig, jafnvel eftir að ég hef bent þeim á hvernig ég kýs að fólk tali um og við mig.

Heilbrigðiskerfið tekur ekki ákvarðanir fyrir mig um hvað ég geri við líkama minn.

Ég er aldrei spurð að hvað ég heiti „í alvörunni".

Ég get alltaf valið mitt kyn sem möguleika á eyðublöðum.

Ég er ekki skilgreind út frá kynvitund minni.

Ég þarf ekki að fá samfélagslegt samþykki til að nota búningsklefa sem hæfir kynvitund minni.

Fólk reynir ekki að gera lítið úr eða segir að ég sé hörundssár þegar ég bendi á fordóma sem ég verð fyrir út af kynvitund minni.

Fólk telur ekki að kynvitund mín sé undir áhrifum einhverrar tískubólu.

Nýyrði sem vert er að nefna frá hýryrðasamkeppni árið 2020 eru orðin kvár (sbr. karl, kona) og stálp (sbr. stelpa, strákur) um kynsegin manneskju. Hán er kvár, hann er karl, hún er kona. Hán er stálp, hún er stelpa, hann er strákur. – Þetta er aðeins lítið brot úr mikilvægri og skemmtilegri fræðslu sem boðið er uppá í Regnbogavottun. Einnig er farið í lagabreytingar sem hafa átt sér stað á 20. og 21. öldinni og sýna vel hversu gróflega kerfið hefur brotið á mannréttindum hinsegin fólks í gegnum tíðina. 

Fræðslan í Regnbogavottun Reykjavíkurborgar er 4 og hálfur klukkutími og byggir á fyrirlestri, samtali, verkefnum, leikjum og beinist almennt að því að opna huga fólks og skoða með hvaða hætti hver og einn vinnustaður geti verið hinseginvænni og þar með starfsmennirnir og samfélagið allt. Það getur verið gott að æfa sig og taka eitt skref og síðan það næsta og næsta þegar breyta á aldagömlu kerfi tvíhyggjunnar. Markmiðið er að koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks og er liður í því að framfylgja mannréttindastefnu borgarinnar.

Borgarbókasafnið í Árbæ, Spöng, Kringlu, Sólheimum, Gróf, Gerðubergi og nú Úlfarsárdal hafa farið í gegnum fræðslu og fengið Regnbogavottun Reykjavíkurborgar.

Þess má geta að allir starfsstaðir Reykjavíkurborgar geta fengið regnbogavottun en þurfa að óska eftir því sjálfir. Fræðslan er 4,5 klst. í heild en það er útfærslu atriði hvort fræðslan sé á einum degi eða sé dreift á fleiri daga. Til þess að viðhalda regnbogavottun þarf síðan að fara fram regluleg fræðsla á þriggja ára fresti, en einnig má óska eftir fræðslu eftir þörfum.

Regnbogavottun vekur fólk til umhugsunar, er bæði fræðandi og hugvekjandi um stöðu hinsegin mála og mikið þarfaþing fyrir alla vinnustaði, fólk almennt og samfélagið í heild sinni.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 9. ágúst, 2022 10:03