Margt smátt | Tuttugu mínútna seinkun

Tuttugu mínútna seinkun

Hann bíður eftir að fiskirútan aki upp að garðshliðinu við húsið. Hún er nú þegar orðin tuttugu mínútum of sein. Hann dæsir og herpir saman munninn. Lítur út um eldhúsgluggann sem hvítar blúndugardínur hanga fyrir, tekur illa lyktandi borðtusku og þurrkar annars hreinan skenkinn. Ýsan í pottinum löngu soðin og hann er búinn að skræla kartöflurnar. Hann lækkar undir hamsatólginni. Allt er annars á sínum stað. Borðið hefur verið stækkað og lagt hefur verið á það með gömlum, rósóttum matardiskum og enn eldri stálhnífapörum. Máð glös fyrir ofan diskana, hægra megin. Matskeiðarnar! Þeim hafði hann gleymt! Gamli maðurinn snýst í hring og strunsar í átt að hnífaparaskúffunni. Dregur hana út og tínir upp úr henni fimm gríðarstórar matskeiðar og leggur þær með natni fyrir ofan matardiskana. Svona! Hann kinkar kolli og andvarpar. 

Gamlinginn gengur aftur að glugganum. Út um hann sér hann að fiskirútan hefur staðnæmst við hliðið. Konan hans og dæturnar þrjár tínast út ein af annarri. Það kemur fát á þann gamla. Hér gildir að vera viðbragðsfljótur. Hann hleypur að eldhússkúffunum og rótar í miðskúffunni þar til hann finnur fiskispaða. Hann veiðir rjúkandi heit ýsuflökin upp úr pottinum og færir þau upp á fat og kemur því fyrir á miðju borðinu. Útihurðinni er hrundið upp og glaðlegt skraf mæðgnanna rýfur þögnina í húsinu. Sá gamli þurrkar sér um sveitt ennið. Kartöflurnar í fölgulri skálinni skella á borðinu og snarkandi hamsatólginni í litla, eldgamla skaftpottinum kemur hann varlega fyrir á hitaplatta. 

Konan hans gengur inn í eldhúsið og heilsar honum. Hún er með húfu úr hvítu, þunnu neti á höfðinu og klædd ljósbláum vinnusloppi utanyfir vinnufötin. Hún lyktar af fiski og slori. Það hnussar í gamla manninum þegar hann lítur á hana með vandlætingarsvip. Konan hans lítur blíðlega á hann og kyssir hann á órakaða kinnina. Dætur þeirra, Alda, Bára og Bylgja, eru farnar að rífast um baðherbergið. Hann gefur þeim illt auga. Þær flissa og ýta hver við annarri en flýta sér svo að þvo sér áður en þær setjast, beinar í baki, við eldhúsborðið. Þau taka til við að matast.

- Þið eruð seinar, segir hann hvasst og horfir á þær undan þungum, loðnum brúnunum.

- Já, pabbi minn. Hann Halli á rútunni gleymdi sér í kaffi hjá Dísu í Kaupfélaginu, svarar Bylgja og reynir að dylja glott.

- Gleymdi sér í kaffi!? Nú hvur andskotinn! Augu gamlingjans stækka um tvær stærðir um leið og ýsubitar og kartöflur spýtast út úr honum með orðunum. Hann lítur á klukkuna fyrir ofan ísskápinn og horfir skelfdur á vísana. Klukkan er að verða hálf eitt. 

Dæturnar stinga saman mjóum nefjunum og tala hver upp í aðra um að hann Halli á rútunni sé að gera hosur sínar grænar fyrir Dísu í Kaupfélaginu. Hann horfir gáttaður á þær. Sjálfar eru þær fallegar og hraustar. Ekkert að þeim. Hann getur ekki skilið hvers vegna engin þeirra hefur fest ráð sitt og flust að heiman. Fundið sér góðan mann og eignast nokkur börn. Hann er að eldast. Skyldi hann nokkuð eiga eftir að sjá lítinn hnokka eða litla tátu skríða hér um gólfin? Hann þráir að eignast barnabörn. Konan hans á meiri möguleika á því. Hún er heilum tveimur áratugum yngri en hann sjálfur. Enn útivinnandi og fjörug. Hann gjóar augunum aftur á klukkuna. Ýtir stólnum sínum snögglega frá borðinu og stendur á fætur. Lítur yfir fegurðina við eldhúsborðið og baðar út öngum.

- Jæja, stelpur! Klukkan er að verða. Rútan fer að koma. Drífið ykkur nú! Ég geng frá eftir ykkur. Hann gengur að stól konu sinnar og dregur hana á fætur. Dæturnar hlæja og þvaðra eitthvað um að sá gamli sé orðinn stressaður. Er hann tímabundinn? Er hann kannski að fara á stefnumót? Þær flissa og senda pabba gamla fingurkoss. Hrúgast allar fram í þrönga forstofuna og fara í hnéhá stígvélin. Skoða sig í speglinum og laga hárið undir netahúfunum. Stanga matarleifar úr tönnunum. Brosa og veifa. Bros konu hans það síðasta sem hann sér. Það fer rakleiðis á réttan stað. Hjartað tútnar út. 

Rútan rennur upp að húsinu í sama mund og þær ganga út um garðshliðið stundarfjórðungi fyrir eitt. Um leið og hurðin lokast á eftir kvenfólkinu rýkur hann inn í dagstofuna og opnar fyrir útvarpið í gamla, svarta viðtækinu. Leggst síðan fyrir í rauða, mjúka flauelssófanum og dregur hlýtt ullarteppið yfir sig. Úr viðtækinu ómar tónlist með Göggu Lund. Hvað hann dáði þessa söngkonu! Hún hafði ferðast um Evrópu og sungið í frægum tónlistarhúsum fyrir fínt fólk hér í den. Gleymdur söngfugl. Saknaðarstingur fer um gömlu pumpuna hans þegar háir sóprantónarnir fara í hæstu hæðir og gamlinginn grípur um brjóstið. Eitt augnablik heldur hann að hann sé staddur í himnaríki og að Gagga, engillinn hans, taki á móti honum með himneskum tónum. En stingurinn fjarar út um leið og hægt dregur niður í tónlistinni þar til hún þagnar alveg. 

- Útvarp Reykjavík. Kunnugleg rödd útvarpþularins glymur í tækinu. Klukkuna vantar tíu mínútur í eitt. Nú verða sagðar veðurfregnir. Gamli maðurinn dæsir og ánægjubros leikur um varir hans. Hann hreiðrar betur um sig, andvarpar og lokar augunum.


Höfundur: Katrín Björk Kristinsdóttir

Næsta saga: Veran