Margt smátt | Inngangur

Margt smátt gerir margt stórt 

Á vorönn 2020 tókust tuttugu höfundar á hendur ferðalag inn á lendur smásögunnar á námskeiðinu Margt smátt. Mánuðina sem ferðalag okkar stóð varð landslag heimsins eins og við höfum kynnst honum sífellt ókunnuglegra. Við stóðum frammi fyrir nýjum veruleika. Samkomubann setti mark sitt á námskeiðshaldið og gjöfulir fundir okkar á Skrifstofunni, ritsmíðaverkstæðinu á Borgarbókasafninu í Kringlunni, féllu niður. Það gleður mig því alveg sérstaklega að geta nú fagnað útgáfu tólf nýrra smásagna sem þrátt fyrir allt litu dagsins ljós á námskeiðinu. Þótt sumir höfundar hafi orðið frá að hverfa vegna aðstæðna fundu aðrir fró í því að hverfa um hríð inn í skáldskap, inn í sögur, inn í heim orðanna – þar sem við getum öll sameinast þrátt fyrir þau boð og bönn sem kunna að ríkja í raunheimum. 

Höfundum þakka ég sérstaklega fyrir þolinmæði og aðlögunarhæfni og, eins og endranær, einstaklega gefandi samfylgd og samstarf. 

Sunna Dís Másdóttir, leiðbeinandi

Fyrsta sagan: Gamli maðurinn