Margt smátt | Veran

Veran

Kalli varð að treysta á önnur skynfæri en augun núna. Aðstæður voru ekki eins og í könnunarferðinni um daginn. Nú var gangurinn teygður og afbakaður eins og í lélegri hryllingsmynd. Ljósið tróð sér á milli lokaðra augnlokanna og málaði heiminn hvítan. En lyktin framundan var sú sama, staðið blóð. Hann var þá á réttri leið og hélt áfram að skynja umhverfið með hrömmunum. Þreifaði sig varlega áfram. Kalli andaði inn og út gegnum munninn og beitti sig hörðu til að geta tekið nokkur skref nær vígvellinum.

Kannski var vígvöllur ekki rétta orðið, þetta var eitthvað miklu verra. Kalli hafði gengið í gegnum ýmislegt í dönskum herskóla og upplifað hræðilega hluti í Írak, en ekkert gat búið hann undir þetta. Ægileg öskrin voru eitt, en þögnin milli þeirra var verri. Var þetta síðasta öskrið hennar? Var þessu lokið?

Nokkur erfið og þung skref í viðbót og þá var hann kominn að hurð við enda gangsins. Kalli tók á öllum sínum mætti og opnaði dyrnar varlega. Það var eins og að hann hefði skrúfað frá nýrri bylgju af kvalafullum ópum við að opna dyrnar. Hvert blæbrigði sársauka hennar var eins og nóta. Hver nóta átti sinn stað í huga Kalla. Það var spilað heilt tónverk á líkama hans með glóandi töngum, sem skildu þó ekki eftir ör, annað en ástin hans sem kvaldist raunverulega þarna fyrir innan. 

Ómeðvitað beygði Kalli sig þegar hann fór í gegnum dyrnar til að reka ekki höfuðið í. Honum tókst að loka varlega á eftir sér. Stella hljóðnaði og óhugnanlegur tómleiki tók aftur við. Ljósgeislarnir hér inni voru ekki eins ágengir. Augun fundu sitt rétta hlutverk aftur. Þá sá hann Stellu liggjandi í rauðum polli í seilingarfjarlægð. Hann kyngdi eigin sársauka og kvölum og fann bragð af ryðguðu járni. Hvenær lýkur þessu?

Eitt stutt hróp og svo aftur hlé, þögn sem var hærri en öskrin. Stella hreyfingarlaus, tíminn stopp. Hann þorði ekki að anda, eins og hann væri hræddur um að draga síðasta andardráttinn frá henni. Svo byrjaði líkami hennar að skjálfa, hrópin fylltu herbergið og skeiðklukka tímans tikkaði áfram.

Kalla fannst eins og tekið væri utan um hann og hann dreginn nær látum vígvallarins. Hann skynjaði hlýju og góðvild í þessari snertingu og tókst að taka nokkur óstyrk skref nær. Þá sá hann glitta í kvalarann í fyrsta skipti. Höfuðið, stórt, slímugt, loðið og ómennskt. Stella stoppaði tímann aftur í stundarkorn.

Eyrun á Kalla fylltust aftur af tónum þjáningar og við það virtist veran eflast, taka á sig rögg og mjaka sér enn nær honum í rauða pollinum. Svo sneri hún sér skyndilega og dökkt andlitið kom í ljós. Ærandi þögn fyllti herbergið. 

Eitthvað innra með honum brast og hann rétti fram hendurnar, eins og hann væri að segja taktu mig frekar en Stellu. Síðasta ámátlega öskrið fæddist á vörum hennar og dó svo rólega út. Þessu var að ljúka. Veran kom enn nær og var nú öll sýnileg. Grár, loðinn, ógeðslegur kroppur með höfuð og fimm útlimi, allur í keng og afbakaður. Alveg upp við Stellu, sem lá þarna í blóði, slími og þögn.

Kalli gerði sér grein fyrir því að hann ætti næsta leik, þessu var þá lokið. Hann skoðaði ófrýnilega veruna betur í návígi. Hún var ekki ólík manneskju, sokkin augu, lítið nef og stór lokaður munnur í ófrýnilegu andlitinu. Veran opnaði annað augað og horfði beint á Kalla.  Honum fannst hún horfa beint inn í sál sína, tengjast honum, skynja sársaukann, vera hluti af honum, vilja komast til hans. Lítil rifa kom á munninn og tunga gægðist varlega út, bragðaði á umhverfinu og blóðinu. Kjafturinn opnaðist upp á gátt og veran dró inn loft af áfergju, eins og hún hefði aldrei gert það áður. Svo grét hún veiklulega.

VAAAAAAAAAA!


Höfundur: Hraunfjörð

Margt smátt: Efnisyfirlit