Margt smátt | Hverfissteinninn

Hverfissteinninn 

Hún opnar augun hægt og rólega, hvar er hún eiginlega? Bekkurinn sem hún liggur á er steyptur í gólfið og þunn dýna ofan á honum, koddi undir höfðinu og teppi ofan á henni. Hún er í öllum fötum nema kápu og skóm, hún hafði verið mjög fín í hnésíðum kjól með hvítum kraga, sokkabuxum og hælaskóm, þó ekki pinnahælum. Nú lítur hún í kringum sig. Það er enginn gluggi, bara einar dyr og klefinn er lítill. Hún er þyrst og þegar betur er að gáð sér hún að það er bjalla ofarlega á veggnum og ákveður að ýta á hana.

Þær Strúna og Sillý höfðu ætlað að halda upp á heimkomuna með því að fara á ball um kvöldið í Þórscafé eða jafnvel á Röðli. Fyrst þurfti þó að koma við í Ríkinu á Lindargötunni og kaupa eina vodkaflösku til að hita upp fyrir fjörið. Þegar þangað var komið rak Strúna augun í flösku af Southern Comfort sem stóð þar uppi í hillu og vildi endilega kaupa hana líka. Með þetta skunduðu þær svo heim til Strúnu vestur á Nesi og um miðjan dag þegar þær voru búnar að snyrta sig og komnar í sitt fínasta dress gátu þær loks sest niður og fengið sér af veigunum. Það varð úr að eingöngu var opnuð flaskan með „suðrænu sælunni“ og drukkið af þeim görótta drykk. Síðan var bara spjallað um hitt og þetta. Þannig leið tíminn mjög fljótt og alltaf lækkaði í  flöskunni. Brátt var kominn tími til að hugsa sér til hreyfings og að komast á ballið, það var því hringt á leigubíl. Þegar þær gengu niður stigann fann Strúna, sú sem þarna bjó, að hún var orðin talsvert drukkin en í stað þess að verða bara eftir druslaðist hún með út í leigubílinn. Síðan var keyrt beina leið á Röðul en þegar þangað var komið sagði Sillý að það þýddi ekkert fyrir hana að reyna að komast inn og stillti henni bara upp við vegg fyrir utan dyrnar meðan hún fór að hitta einhvern sem þar var staddur inni. Það síðasta sem Strúna sá áður en hún lognaðist útaf var „svarta María“ - löggubíll sem lagt var á stéttinni beint fyrir framan hana, síðan ekkert meir. Þannig týndist tíminn.

Það er eins og við manninn mælt að í lúgunni á hurðinni birtist andlit konu, hún leyfir henni að fara á klósett og gefur henni líka glas af vatni. Þú varst komin hingað snemma, upp úr klukkan níu í gærkvöldi og núna er klukkan fjögur að nóttu segir konan, en það má því miður ekki hleypa þér út fyrr en klukkan átta í fyrramálið. Það er í lagi, segir stúlkan, ég fer þá bara að sofa aftur. Hún tekur líka eftir því að að mjög margir skór eru í ganginum fyrir framan allar dyr, það hefur víst verið mikið að gera á þessu „hóteli“ í nótt. 

Þegar hún vaknar aftur er klukkan orðin átta og konan hleypir henni út. Síðan þarf að sinna skýrslugerðinni, konan afhendir henni veski og aðra muni sem höfðu verið í því og úr, hálsfesti og hringa. Ekkert vantar og allt er vandlega skráð, bæði munir og peningar, bæði íslenskir og gjaldeyrir sem var í veskinu. Hún fer í kápuna og skóna, síðan er henni hleypt út. Mikið er hún nú fegin því að dyrnar eru ekki að framanverðu heldur opnuðust út í portið bakatil, þaðan getur hún laumast óséð og komið sér heim. Verst hvað hún getur verið mikill hænuhaus. Þvílíkt og annað eins vesen.

Þetta hafði svo sem ekki miklar afleiðingar fyrir hana en nokkru síðar kom bréf í póstkassann heima hjá henni. Það var sekt fyrir „ölvun á almanna færi“ eins og stóð í bréfinu. Þetta var umtalsverð upphæð sem hún borgaði með glöðu geði. Henni þótti það ekki mikil fjárútlát fyrir að gista á öruggum stað í svona ósjálfbjarga ástandi. En þessi svokallaða vinkona hennar sem hafði ætlað með henni á ballið byrjaði strax að skammast næst þegar þær hittust, yfir því að hún hefði ekki beðið eftir sér rétt á meðan hún hljóp snöggvast inn á Röðul að hitta bróður sinn. Þegar hún svo heyrði allan sannleikann hló hún bara eins og brjálæðingur og fannst þetta voða fyndið. Svo röflaði hún eitthvað um að það hefðu fleiri af skipsfélögunum  gist á þessu fína hóteli þessa nótt. Já, þeir eru víst margir hænuhausarnir hugsaði Strúna, en sagði ekki neitt. Hún vissi af biturri reynslu að ekki borgaði sig að rökræða við Sillý sem alltaf vildi hafa síðasta orðið. En þetta var í öllu falli í fyrsta og einnig síðasta sinn sem hún gisti slíka stofnun. Hún lét þessa reynslu sér að kenningu verða og fór að passa betur upp á í hvaða félagsskap hún var og reyna að venja sig á betri siði.


Höfundur: Sigrún Guðjónsdóttir

Næsta saga: Kyrrðin í þögninni