Margt smátt | Kyrrðin í þögninni

Kyrrðin í þögninni

Ég lagði eyrað að hurðinni og reyndi að hlusta á hljóðin að innan. Ekkert nema þögnin svaraði. Ég fann fyrir miklum létti, þetta yrði góður dagur. Rólega opnaði ég hurðina, sem lét í sér heyra með lágu ískri. Ég hengdi síðan lyklakippuna á hankann. Það var mjög mikilvægt, mamma hafði ítrekað það mjög oft, næstum á hverju kvöldi. Ég passaði alltaf þegar ég fór út að setja lykilinn í sama vasann á úlpunni og renna fyrir. Ekkert annað mátti fara í þennan vasa.

Ég losaði reimarnar á skónum og raðaði þeim vandlega í skóhilluna, setti úlpuna á herðatré og húfuna og vettlingana í skúffuna. Ég passaði að taka töskuna inn í herbergið mitt, það mátti alls ekki skilja hana eftir í forstofunni. Til öryggis leit ég yfir gólfið og sá að forstofugólfið var autt, ég mátti ekki gera nein mistök. Áður en ég gat fengið mér að borða, þá leit ég inn í  öll herbergi til að vera viss um að enginn væri heima. Ég hafði rétt fyrir mér, húsið var tómt alveg eins og ég vildi hafa það. 

Einmana bananar lágu í ávaxtaskálinni og voru þeir orðnir næstum alveg brúnir. En það varð að hafa það. Ég smurði mér tvær brauðsneiðar með bananasneiðum og hlustaði á þögnina. Á meðan ég tuggði brauðið flögruðu hugsanirnar í burtu ásamt áhyggjunum. Kyrrðin var yndisleg og lét mann gleyma stað og stund. Tímann þar til pabbi kæmi heim þyrfti ég að skipuleggja. Ég þyrfti náttúrulega að vaska allt upp eftir mig og setja það á réttan stað. En hvað myndi ég gera svo? Í mesta lagi hafði ég þrjá klukkutíma, í minnsta lagi einn og hálfan. Ég gat aldrei verið viss. Einu sinni var það alltaf eins, ég hafði fjóra tíma áður en nokkur kom heim. En allt í einu breyttist það og ég gat aldrei verið öruggur um tímann sem ég hefði nákvæmlega, nema undanfarið var tíminn sem ég gat verið einn heima alltaf í styttra lagi. Þess vegna reiknaði ég alltaf bara með einum klukkutíma til öryggis, eftir það yrði ég að vera kominn inn í herbergi áður en pabbi kæmi heim úr vinnunni.

 Það myndi aldrei koma fyrir aftur það sem gerðist í fyrsta skiptið þegar pabbi kom fyrr heim og ég var í miðjum Tomma og Jenna. Hljóðið í sjónvarpinu hafði verið aðeins of hátt þannig að ég heyrði ekki ískrið í útidyrahurðinni, aðeins hurðaskellinn og ég vissi strax hver var kominn. Ég slökkti á sjónvarpinu eins hratt og ég gat og reyndi að hlaupa inn í herbergi en mætti honum þá á ganginum. Ég sá strax á svipnum hans að hann var í sínu erfiða skapi eins og mamma kallaði það. Við mynduðum aðeins augnsamband í skamma stund og hann þurfti ekki einu sinni að segja neitt, hjartað fór á fullt og ég hélt það myndi springa. Mig langaði að hverfa ofan í gólfdúkinn og hætta að vera til. Einu orðin sem hann gaf frá sér voru : „Farðu frá, krakkaaumingi!“ og ýtti mér í vegginn. Sár stingur blossaði upp í öxlinni, en frá mér heyrðist ekki múkk. Ég hljóp undir eins inn í herbergi og undir sæng. Eftir smá stund heyrði ég hátt hljóðið í sjónvarpinu og klikkið í dósinni þegar hún var opnuð. Sölt tárin byrjuðu leka niður heitar kinnarnar.

Núna, ef ég ætlaði að horfa á sjónvarpið, passaði ég alltaf að hafa það á lægsta styrk, með puttann tilbúinn á takkanum á fjarstýringunni til að slökkva. Ég færði líka stólinn aðeins nær hurðinni svo að ég væri tilbúinn ef eitthvað gerðist.

Þessi dagur var ágætur, ég náði að horfa á nokkra þætti og gera heimalærdóminn áður en ég fór inn í herbergi. Hálftíma síðar hljómaði ískrið eins og viðvörun og stuttu seinna kom skellurinn í hurðinni. Sjónvarpið byrjaði að óma út um allt hús og að lokum heyrðist klikk. Ég fór undir sæng og sofnaði. 

Öskrin og rifrildið vakti mig af værum svefni, sem var vanalegt þegar mamma kom heim úr vinnunni. Ég tók fyrir eyrun og reyndi að sofna aftur. Ég vaknaði við að mamma strauk mér um hárið. Það var myrkur úti, en ljósastaurinn lýsti aðeins upp andlitið hennar. Annað augað var hulið skugga, ég settist upp og tók utan um blautan vanga hennar. „Ég elska þig svo mikið, litli strákurinn minn. Klæddu þig aðeins betur, við ætlum að fara í heimsókn til ömmu.“ Bláa flíspeysan lá í kuðli á mottunni, ég skellti mér í hana og fylgdi mömmu síðan hljóðlega inn í forstofu. Ég sá Batman bakpokann minn á gólfinu, úttroðinn, og uppgötvaði að þetta yrði engin stutt heimsókn hjá ömmu. Þetta ferðalag um nótt kom mér ekkert svo á óvart því að þetta hafði gerst nokkrum sinnum áður. En einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta yrði aðeins öðruvísi en áður. 

Í bílnum sagði mamma ekki neitt og ég ekki heldur. Mamma var eins og ég, við elskuðum þögnina, hún huggaði grátinn í sálinni. En þessi þögn var öðruvísi, ekki huggandi heldur þrúgandi. Ég fann hversu örmagna mamma var, eins og allt líf hefði verið sogið úr henni. Ég þorði ekki að segja neitt, ég var líka hræddur um að ég myndi segja eitthvað vitlaust því að hún virtist svo viðkvæm, eins og hún væri við það að brotna. Þegar við komum til ömmu voru engin orð sögð. Amma leit strax á annað augað hennar mömmu og byrjaði að tárast. Hún tók utan um dóttur sína og það var eins og tíminn hefði stoppað. Loks horfði hún niður á mig og faðmaði mig líka þétt að sér. Lyktin hennar ömmu umlukti mig eins og varnarskjöldur. Meðan ég fann þessa lykt gat ekkert hræðilegt gerst. Endalausi hnúturinn í maganum byrjaði að losna, þó það væri bara í smástund.

Mamma kom inn til ömmu en ég fann á mér að hún myndi ekki gista. Hún reyndi að svæfa mig en fór svo með ömmu inn í eldhús og ég heyrði bara daufar raddirnar. Eftir svolitla stund heyrði ég dyrnar opnast og lokast.

Um morguninn bakaði amma uppáhaldið mitt, pönnukökur, og reyndi að gefa mér allt til þess að láta mér líða betur, en það var aldrei langt í áhyggjusvipinn hjá henni. Laugardagurinn var heila eilífð að líða, sama hvað ég gerði virtist tíminn ganga afturábak. Útvarpið spilaði endalaust í bakgrunninum á meðan amma var að bardúsa í eldhúsinu.  Á meðan reyndi ég að lesa bók, en ég hætti um leið því ég gat engan veginn haldið einbeitingu. Afi reyndi líka að kenna mér að leggja kapal en ég gleymdi öllu um leið. Á endanum fórum við afi inn í stofu og kveiktum á sjónvarpinu. Fyrr en varði var afi byrjaður að hrjóta í hægindastólnum sínum. Ég teygði mig í fjarstýringuna og lækkaði hljóðið ósjálfrátt. Í kvöldmatnum ríkti þögn, afi reyndi alltaf að byrja á einhverju umræðuefni en það lognaðist fljótt út af. Ég fór að hátta og lagðist upp í rúm, amma settist hjá mér á rúmstokkinn á meðan ég reyndi að sofna. Um nóttina var ég alltaf að vakna í svitabaði og dreymdi martröð eftir martröð. Sunnudagsmorgunninn rann loksins upp og ég var farinn að sakna mömmu og hlakkaði til að sjá andlitið hennar.  

Seinnipartinn hringdi síminn. Ég heyrði ekki hvað var sagt, og amma svaraði engu og starði bara út í loftið, stjörf. Afi tók af henni símann og lagði hann að eyranu. Hann tók utan um ömmu og byrjaði að hágráta. Ég vissi ekki hvernig ég átti að láta, ég hafði aldrei séð afa gráta. Eftir smástund sagði afi mér hvað hafði gerst. Orðin bárust að eyrunum en ég skildi þau ekki, ég gat ekki meðtekið þau. Orðin náðu ekki að hjartanu, því það vildi ekki hlusta. Ég myndi aldrei sjá mömmu aftur og ég vildi ekki sjá pabba aftur. Það eina sem var algjörlega öruggt, var að enginn myndi meiða mömmu, aldrei aftur.


Höfundur: Svanhildur Sævarsdóttir

Næsta saga: Lokkar