Margt smátt | Glöggskyggni

Glöggskyggni

Þetta var á laugardagskvöldi að haustlagi. Ég hafði skilið við manninn minn til sextán ára fyrr á árinu. Við seldum húsið og skiptum öllu upp, ég keypti litla þriggja herberja risíbúð í vesturbænum. Ég er ekki að segja að það hafi gengið áfallalaust fyrir sig, það gekk á ýmsu. Þetta var ekki það sem ég óskaði eftir, en lífið þeytir manni í ýmsar áttir, jafnvel án manns samþykkis. Við eigum jú þrjú börn saman, svo það er eins gott að standa sig og gera það besta úr stöðunni. Þau eru eina viku hjá mér og hina hjá pabba sínum. Ég  er svona kona sem setur hausinn í vindinn ef á móti blæs.

Börnin voru hjá pabba sínum, þau fara og koma á fimmtudögum, þá er skiptidagur -  það hljómar eins og skiptibókamarkaður. Ég var þegar farin að sakna þeirra sárt. Ég var ein heima með kettinum og mig langaði allt í einu svo rosalega á ball. Ég hringdi í þær konur sem voru líklegar til að geta farið með mér. Fyrst hringdi ég í Grétu vinkonu. Gréta komst ekki, Hjalti þurfti óvænt að fara á ráðstefnu og því var hún með börnin þessa helgina. 

Prófa að hringja í Huldu systur, hún er ekki bundin yfir neinu.

„Sæl, ertu upptekin í kvöld?“

„Sæl, hvað ertu með í huga?“

„Mig langar svo á ball ætlaði að athuga hvort þú værir til í að koma með mér?“

„Ball? Af hverju?“ Hvað er langt síðan þú hefur farið á ball?

„Af hverju? Nú til að hitta fólk, dansa og hlusta á tónlist.“

„Ertu komin með einhvern upp á arminn?“

„Nei, þarf ég að vera það til að mig langi á ball?“

„Ég var búin að lofa mömmu að hjálpa henni með gardínurnar svo ég kemst ekki með þér.“

„Allt í lagi, ég fer þá bara ein.“

„Ein á ball, kona fer ekki ein á ball.“

„Nú, af hverju ekki?“

„Það er svo afhjúpandi, þú getur ekki farið ein á ball.“

„Hvað áttu við?“

„Það liggur í augum uppi að hún er í karlmannsleit.“

„Já er það þá ekki bara allt í lagi?“ Það var farið að fjúka í mig þegar hér var komið sögu. „En karlmaður sem fer einn á ball?“

„Þú veist að það er litið öðrum augum.“

„Bless, ég þarf að drífa mig. Bið að heilsa mömmu.“

„Vertu blessuð, skila því, farðu varlega.“

Hvernig datt mérí hug að hringja í systur mína, það síðasta sem ég þurfti núna var að hlusta á Rannsóknarréttinn. Þetta var að koma mér úr stuði, en eins og svo oft með mig ef ég mæti andstöðu þá fer ég í að gera það mótsetta, skítt með það, þá fer ég fer bara ein, ég gæti þekkt einhverja þegar ég kæmi á svæðið. 

Svo ég fór að hafa mig til. Ég sagði við sjálfa mig: Nú dekrarðu við þig. Ég fór í heitt freyðibað og setti uppáhalds plötuna mína á fóninn: Pearl með Janis Joplin. Ég fór í mitt fínasta púss, svarta dragt og hvíta blússu með pífukraga, svartar sokkabuxur og svarta hælaháa lakkskó. Ég tók til við að mála mig af kostgæfni og punkturinn yfir i-ið var svo hatturinn. Svartur hattur með slöri og fjöður. Mér fannst ég ansi glæsileg þó ég segi sjálf frá. Ég var komin í fínt stuð. 

Ég ákvað að taka stefnuna á Þjóðleikhúskjallarann og þangað var ég mætt þegar klukkan var langt gengin í eitt. Inni var dauf birta og það heyrðist lágvær tónlist. Á barnum voru fimm karlmenn á stangli. Mér fannst eins og ég væri komin í grafhýsi en ekki á dansstað. Við fyrrverandi  höfðum búið erlendis í fimm ár og vorum til þess að gera nýflutt heim þegar við skildum svo ég hafði ekki farið út að skemmta mér í Reykjavík allan þann tíma. Fyrir fimm árum fór fólk greinilega fyrr á skemmtistaðina en nú. Ég stóð eins og illa gerður hlutur úti á gólfi og var að hugsa hvað til bragðs skyldi taka þegar einn af gestunum renndi sér niður af barstólnum og kom gangandi til mín. Hann var örlítið reikull í spori en strammaði sig af, setti aðra hendi á  mjöðm, pírði augun og skáskaut þeim upp eftir mér og sagði svo með svolítið drafandi röddu „Eru nú allir búnir að yfirgefa þig?“ Það var ekki honum að þakka að ég rak honum ekki löðrung. 

Eftir á að hyggja var þetta laukrétt hjá manninum. Ég leit út eins og kona sem var nýkomin frá því að fylgja manni sínum til grafar.


Höfundur: Ingibjörg K. Ingólfsdóttir

Næsta saga: Hverfissteinninn