Um þennan viðburð
Sýning | Gleðin að gera og vera
Svipmyndir úr fjölbreyttu starfi fatlaðs fólks hjá Virknimiðstöð Reykjavíkur og af verkum sem fatlað fólk á öllum aldri hefur unnið. Hjá miðstöðinni starfar fólk saman að verkefnum sem tengjast sköpun og úr verða listaverk af ýmsu tagi.
Á sýningunni er leitast við að veita innsýn í starfið sem gefur hugmynd um athafnir, vinnu og virkni fatlaðs fólks og til sýnis verða listmunir og hlutir sem þau hafa búið til. Jólamarkaður Virknimiðstöðvar er haldinn á Borgarbókasafninu í Spönginni í desember á hverju ári, þar sem afrakstur starfsins er til sölu: kerti, kort, styttur, spil, púðar, töskur, trébretti, skálar og stjakar, svo fátt eitt sé nefnt. Gleði og samvera eru í hávegum höfð á miðstöðinni, mikið er gert úr því að vera virk og njóta.
Virknimiðstöð Reykjavíkur er úrræði fyrir fólk með fötlun á öllum aldri. Virknimiðstöðin samanstendur af þremur starfsstöðum sem eru starfandi í Efra Breiðholti og Grafarvogi, sem eru Opus: vinna og virkni, Iðjuberg og Smiðjan. Notendur Virknimiðstöðvarinnar hafa tækifæri til þess að nýta sér alla þrjá staðina í einu.
Verið velkomin á opnun sýningarinnar, miðvikdaginn 12. febrúar kl. 14.
HÉR er að finna helstu upplýsingar um aðgengismál í Borgarbókasafninu Spönginni.
Viðburðurinn er haldinn í tengslum við menningarhátíðina Uppskeru sem fram fer í Reykjavík dagana 8. febrúar til 8. mars 2025.
Tilefni hátíðarinnar er 20 ára afmæli fötlunarfræða við Háskóla Íslands. Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á framlagi fræðafólks, samtaka fatlaðs fólks og fatlaðs listafólks til íslenskrar menningar.
Lykilviðburðir hátíðarinnar verða tveir, málþing í Háskóla Íslands 21. febrúar og menningarhátíð í Hörpu 22. febrúar. Auk þess verða viðburðir víðs vegar um borgina þar sem gestum gefst tækifæri á að njóta listsköpunar fatlaðs fólks. Í boði verður myndlistasýning, kvikmyndasýning, bókmenntakvöld, gjörningakvöld, ljóðakvöld, smiðjur auk viðburða á söfnum borgarinnar.
Dagskráin verður aðgengileg á auðlesnu máli og allir viðburðir táknmálstúlkaðir. Í Hörpu verður rittúlkun á ensku og sjónlýsing á íslensku og ensku. Hátíðin er öllum opin að kostnaðarlausu.
Verið öll velkomin á Uppskeru!
Nánari upplýsingar um sýninguna veita:
Sigurbjörn Rúnar Björnsson, forstöðumaður Virknimiðstöðvar
sigurbjorn.runar.bjornsson@reykjavik.is
Melkorka Edda Freysteinsdóttir, deildarstjóri listasmiðju hjá Smiðjunni
melkorka.edda.freysteinsdottir@reykjavik.is
Sigríður Stephensen, sérfræðingur
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is