Verkið Caring/shearing eftir Sesselju Tómasdóttur
Verkið Caring/shearing eftir Sesselju Tómasdóttur

Um þennan viðburð

Tími
Á opnunartíma
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Sýningar

Naglinn | Caring/shearing

Föstudagur 1. september 2023 - Föstudagur 3. nóvember 2023

Listaverkið Caring/shearing eftir Sesselju Tómasdóttur verður til sýnis á Naglanum í Borgarbókasafninu Sólheimum, frá 1. september fram í byrjun nóvember. Þetta er 17. sýningin í sýningaröð Naglans. Að þessu sinni valdi Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri Sólheimasafns, verkið. Hver sýning samanstendur af einu listaverki og sem eru öll fengin að láni úr Artótekinu, sem er til húsa í Borgarbókasafninu Grófinni.

 

Sesselja Tómasdóttir er fædd og uppalin á Ólafsvík og naut sín sem barn í þeirri stórfenglegu náttúru sem Snæfellsnes hefur upp á að bjóða. Sesselja lauk BS-gráðu í myndmenntakennslu árið 1994 og síðar B.Fa gráðu (Bachelor of Fine arts) frá Listaháskóla Íslands árið 1999. Frá LHÍ fór hún í skiptinám til Englands og nam við Winchester School of Arts, þar sem virtir prófessorar leiðbeindu henni. Í dag kennir Sesselja myndlist ásamt því að skapa hana sjálf. Sesselja er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM), hún var einn af stofnendum Grósku, félagi myndlistarmanna í Garðabæ og ásamt því hefur hún rekið þrjú gallerí og eigin vinnustofu. Verk Sesselju hafa verið til sýnis á fjölda einka- og samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur meðal annars verið valin í norrænu portraitsamkeppnina Portrait Nu.

Verk Sesselju eru máluð með olíulitum á striga, stundum notar hún blandaða tækni þar sem er einnig unnið með ljósrit eða teikningar. Innblásturinn að verkum Sesselju eru hugleiðingar hennar sjálfrar um traust á eigin skynjun og sú hugmynd að sanna þekkingu finnum við aðeins innra með okkur sjálfum. Að vera þátttakandi í stóru andlegu ferli, að þora að vera hluti af heiminum, vaxa upp úr frjóum jarðvegi, að tengjast umhverfi sínu og virða það.

 

Áhugasamir geta keypt verkið eða leigt það á kaupleigu, þá eignast viðkomandi verkið þegar það hefur verið greitt upp. Sé sýningarverkið keypt (eða leigt) má kaupandinn velja úr Artótekinu hvaða verk verður næst til sýnis á Naglanum.

Hægt er að leigja verkið á 7.000 kr. á mánuði eða kaupa á 250.000 kr.

 

Fyrir nánari upplýsingar um Artótekið, listamanninn eða verkið bendum við á heimasíðu Artóteksins: https://artotek.is/


Aðrar upplýsingar veita:

Lísbet Perla Gestsdóttir
lisbet.perla.gestsdottir@reykjavik.is | s. 411 6160

Hólmfríður Gunnlaugsdóttir
holmfridur.gunnlaugsdottir@reykjavik.is | s. 411 6112