Vilborg Davíðsdóttir og bók hennar Land næturinnar
Vilborg les upp úr og spjallar um nýja bók sína

Um þennan viðburð

Tími
16:30 - 17:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Liðnir viðburðir

Bókakaffi | Land næturinnar

Þriðjudagur 14. nóvember 2023

Vilborg Davíðsdóttir les upp úr og spjallar um nýja bók sína; Land næturinnar.

Bókin er áhrifamikil og spennandi skáldsaga sem hefst þar sem þræðinum sleppti í fyrri bókinni um Þorgerði Þorsteinsdóttur, Undir Yggdrasil, en fyrir hana var Vilborg tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021.

Hér leiðir hún lesendur enn í ævintýraför og opnar nýja sýn á slóðir víkinga í Austur-Evrópu.

Á bókarkápu segir: Þorgerður Þorsteinsdóttir hefur lifað mikinn harm heima á Íslandi og heldur til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.

Land næturinnar er tíunda skáldsaga Vilborgar sem m.a. er þekkt fyrir þríleikinn um landnámskonuna Auði djúpúðgu; Auður, Vígroði og Blóðug jörð.  

Vilborg Davíðsdóttir fæddist á Þingeyri árið 1965. Hún er stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði, lauk prófi frá Háskóla Íslands í hagnýtri fjölmiðlun árið 1991, BA prófi í þjóðfræði og ensku 2005 og MA í þjóðfræði árið 2011. Meistaraprófsritgerð hennar fjallaði um sagnahefð og þjóðtrú á Hjaltlandseyjum.

Hún starfaði við fréttaskrif og dagskrárgerð á ýmsum fjölmiðlum frá 1985 til 2000 en hefur síðan þá helgað sig skáldsagnaskrifum. Þá hefur hún sinnt kennslu í skapandi skrifum og þjóðfræði við HÍ og farið með lesendur sína í hópferðir á söguslóðir Auðarþríleiksins á Bretlandseyjum. Vilborg er þriggja barna móðir og býr í Elliðaárdalnum í Reykjavík.

Enginn aðgangseyrir og öll velkomin!

Viðburðurinn á Facebook


Nánari upplýsingar veitir:
Jónína Óskarsdóttir 
jonina.oskarsdottir@reykjavik.is | s. 411 6250

Bækur og annað efni