
Um þennan viðburð
Smiðja og sögustund | Við þorum, getum og viljum!
Rit- og myndhöfundurinn Linda Ólafsdóttir heldur smiðju fyrir fjölskyldur í tengslum við sýningu sína á frummyndum úr bók hennar um Kvennafrídaginn; ÉG ÞORI! ÉG GET! ÉG VIL! sem sett er upp á safninu í tilefni af 50 ára afmæli Kvennafrídagsins.
Linda mun lesa upp úr bók sinni og stýra svo smiðju þar sem gestir geta búið til sín eigin mótmælaspjöld til að koma skoðun sinni á framfæri og krefjast jafnréttis og friðar í heiminum. ÉG ÞORI! ÉG GET! ÉG VIL! kom upphaflega út á ensku árið 2023, en bókin hefur verið þýdd á íslensku, þýsku og japönsku. Bókin hefur hlotið fjölda viðurkenninga og hafa myndir úr bókinni verið sýndar víða um heim, en bókin var nýlega tilnefnd til þýsku barnabókaverðlaunanna.
Linda Ólafsdóttir er rit- og myndhöfundur, en hún hefur myndlýst fjölda bóka og má þar meðal annars nefna hina sígildu Íslandsbók barnanna, Reykjavík barnanna, Blíðfinn, Draumaþjófinn og bókina um Einar, Önnu og safnið sem var bannað börnum. Linda heldur reglulega námskeið, smiðjur og vinnustofur og gefur út bækur sínar bæði innanlands og utan. Fyrir verk sín hefur Linda hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna.
Læsi á stöðu og baráttu kvenna er samstarfsverkefni almenningsbókasafna á Íslandi í tilefni af Kvennaári 2025.
Verkefnið er styrkt af Bókasafnasjóði.
Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, sérfræðingur
gudrun.elisa.ragnarsdottir@reykjavik.is | 411 6145