Malena Níní nemandi í Vogaskóla

Lesandinn | Malena Níní Starradóttir

Malena Níní Starradóttir er 11 ára nemandi í Vogaskóla í Reykjavík. Hún æfir skauta og þykir skemmtilegast að læra stærðfræði í skólanum. En fyrir utan skólann þá er helsta áhugamál hennar að teikna og skreyta, já og svo þykir henni mjög gaman að lesa ævintýri og heimsækir reglulega Borgarbókasafnið í Sólheimum. Þessa dagana er Barnamenningarhátíð í Reykjavík og við fengum því Malenu til að mæla með nokkrum vel völdum bókum. 

Finnst þér gaman að lesa og lestu mikið?
Já, mjög gaman að lesa. Við verðum líka alltaf að vera að lesa í skólanum, en ég les líka margt annað en það.

Ertu að lesa einhverja bók núna sem þú vilt segja okkur frá?
Ég er að lesa þrjár bækur í einu. Í skólanum er ég að lesa Hringavitleysu (eftir Sigurrós Jónu Oddsdóttur). En heima Artemis Fowl (eftir Eoin Colfer) og einnig Leyndardómurinn um hinn ódauðlega Nicolas Flamel (eftir Michael Scott). Það besta við þessar þrjár bækur er ævintýraheimurinn og einnig hvað þær eru rosalega ólíkar. Mér finnst allt skemmtilegt sem er ævintýri.

Áttu þér uppáhaldsbók og veistu af hverju?
Já, allar Harry Potter bækurnar, það er bara eitthvað svo skemmtilegt við þær og maður sogast alveg inn. Síðan er önnur bók sem ég held mikið upp á og hún heitir Dóttir hafsins (eftir Kristínu Björg Sigurvinsdóttur). Hún er um 16 ára stelpu sem hverfur ofan í hafið og kemst að því að hún er dóttir hafsins. Hún er hluti af gömlum spádómi og bjargar öllu sjávarfólkinu.

Eru einhverjir barnabókahöfundar sem þú vilt nefna og þér finnst skemmtilegir?
J.K. Rowling út af Harry Potter auðvitað. Svo finnst mér Gunnar Helgason frábær með Stellu-bókunum og líka Fótboltabækurnar eins og Víti í Vestmannaeyjum.

Að lokum: Ferðu stundum á bókasafnið?
Já, ég fer oft á litla safnið í Ljós eða Sólheimum.

 

Við þökkum Malenu Níní kærlega fyrir að segja okkur frá ævintýrabókunum sínum á köldum sólskinsdegi í apríl beint eftir skóla. Bækurnar eru allar til á safninu og um að gera að lána og lesa og auðvitað að njóta Barnamenningarhátíðar sem er haldin 5.-10. apríl 2022 um alla borg og meðal annars á Borgarbókasafninu:

LAUGARDAGINN 9. apríl:
Hjólatúr um Voga- og Heimahverfið | Borgarbókasafnið Sólheimum
Sögu- og teiknismiðja | Borgarbókasafnið Gerðubergi
Furðudýr úr ríki náttúrunnar | Borgarbókasafnið Spönginni

LAUGARDAG - SUNNUDAG, 9.-10. apríl:
Ævintýrahöllin | Borgarbókasafnið Úlfarsárdal

2. október 2021 - 30. apríl 2022:
Þín eigin bókasafnsráðgáta | Borgarbókasafnið Gerðubergi

SÝNINGAR á Barnamenningarhátíð í apríl 2022:
Ósýnileg undur náttúrunnar | Borgarbókasafnið Grófinni
Vogurinn okkar og nærliggjandi náttúra | Borgarbókasafnið Spönginni
Perluverk | Borgarbókasafnið Árbæ

 


 

UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 12:23
Materials