Fan Sissoko

Spilað með tungumálið | Fan Sissoko

Fan Sissoko er hönnuður og hefur þróað nýtt borðspil með Helen Cova fyrir fólk sem vill læra íslensku og nefnist spilið Beygja. Notendum býðst að prófa spilið á bókasafninu á sérstökum viðburði verkefnisins Spilum og spjöllum á íslensku. Við fengum að spyrja Fan nokkurra spurninga um íslenskunám.

Hvernig myndirðu lýsa sambandi þínu við íslenska tungumálið?

Ég byrjaði að læra íslensku áður en ég flutti til landsins og í byrjun fannst mér skemmtilegast að læra ný orð – hvernig orðin eru samsett finnst mér gagnsætt og ljóðrænt. En í fyrsta skipti sem mér var kynnt fallbeygingartafla, þá blossaði upp í mér reiði. Móðurmál mitt er franska og ég lærði þýsku, svo það að læra málfræði var ekkert nýtt fyrir mér, en íslenska málfræðin er eitthvað allt annað og meira! Einn af kennurunum mínum var vanur að segja, þegar hann gat ekki svarað spurningu tengdri málfræði: „Afsakið, en þetta eru ekkert annað en stælar í íslensku tungunni.“ Nú þegar ég bý hérna, þá hef ég fleiri tækifæri til að æfa mig og þriggja ára stelpan mín vísar veginn. Hún er eins og svampur sem tekur endalaust við nýjum orðum. Maður þarf vissulega á hugarrými til að bæta við þekkinguna. Suma daga get ég tekið virkan þátt í samtölum og svo eru aðrir dagar, þá segir heilinn þvert nei.

Eru einhver ákveðin orð sem þú elskar eða þolir ekki?

Uppáhaldsorðið mitt er fíll. Ég hlæ í hvert skipti sem ég heyri það (sem gerist undarlega oft). Ég bara skil ekki af hverju íslenskan þarf á eigin orði og geti ekki verið sem sína útgáfu af elefant. Ég hef flett því upp í öðrum skandinavískum tungumálum og þau notast öll við eigin útgáfu af „elephant“. Ef einhver gæti útskýrt þetta fyrir mér út frá orðsifjafræði, þá þætti mér gaman að heyra það.

Þú hannar borðspil um tungumálnám, hversu mikilvægt telur þú að leika sér þegar við lærum nýtt tungumál?

Að leika sér er ekkert grín! Börn læra um heiminn og sjálf sig í leik. Það er ekkert sem segir okkur að fullorðnir ættu að hætta að leika sér til að læra nýja hluti. Sérstaklega þegar við lærum nýtt tungumál. Sem byrjandi, þá getur hræðsla við að gera mistök og að missa tökin á að tjá sig að öllu leyti haft áhrif á sjálfstraustið – sérstaklega þegar tungumálakunnáttan stýrir því hvort þú náir að skapa þér heimili í nýju landi. Það kom fram í mörgum viðtölum sem ég tók við tungumálanema í íslensku þegar ég var að undirbúa leikinn. Spil geta ekki komið í stað hefðbundinnar tungumálakennslu, en leikir geta hjálpað okkur að komast yfir hræðslu við að tjá sig – aðallega því að reglurnar þýða að þú verður að prófa, en líka að umhverfið verður að vera öruggt og skemmtilegt, þar sem mistök eru leyfð og það getur ekkert slæmt gerst þó manni verði á.

Notendum gefst tækifæri á að prófa nýtt borðspil Beygja sem Fan þróaði með Helen Cova í Grófinni 13. Nóvember. Skráning á viðburðinn er hér.

Kynningarmynd spilsins B.eyja

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 14. október, 2021 09:38