Rasismi í barnabókum | Opið samtal

Achola Otieno, Bára Bjarnadóttir og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad hittu okkur til að ræða í opnu samali hvernig bókasafnið gæti unnið gegn rasískum staðalímyndum. Bókasafnið er vettvangur lýðræðis sem getur aukið skilning barna á umhverfi sínu, eflt þau í gagnrýnni nálgun á hugmyndir og frásagnarmáta. En hvað myndi slíkt starf fela í sér?

Ein leið er að vinna aukið með samfélögum og sérfræðingum í málefninu til að vinna gegn kerfisbundnum rasisma, rýna í birtingarmyndir nýlenduhyggju, ekki einungis sem hluti af sameiginlegri sögu heldur einnig sem hugarfar. Einnig myndi skipulagt menningarstarf bókasafnsins hagnast á því að skoða með gagnrýnum augum hvernig samstarfaðilar í menningarstarfi eru valdir. 

Bókasafnið getur stutt við fjölbreytni í frásagnamátum til að vekja athygli á hvað áhrif samfélagsnorm eins og hvítleiki og rasískar staðalímyndir hafa á okkur og birtast í hversdagsleikanum. Frásagnamáti og myndbirtingar í bókum geta haft áhrif á mótun sjálfsmynda barna og sjálfstraust.

Hvar eru bækur með karakterum sem eru ekki hvítir og þeir skera úr út fyrir eitthvað annað en húðlitinn? Erum við mest með dæmi um litað fólk fyrir framúrskarandi frammistöðu á tilteknum sviðum? Tökum við eftir þegar sagan ýtir undir að hvítir bjargi heiminum?

Það er þörf á að viðurkenna málefnið og að það eigi erindi við starf bókasafnsins. Vinnustofur með starfsfólki myndi styðja okkur í að skilja vandann og hvernig hægt væri að bregðast við honum til að efla okkur í að vinna gegn rasískum staðalímyndum.

Við þökkum fyrir samtalið og minnum á að félagasamtökum er velkomið að auðga menningardagskrá bókasafnsins með fræðslu og skemmtilegum viðburðum. Sendið
okkur línu, við erum opin fyrir nýjum hugmyndum.

Opið samtal, hvað er það? Umræðuvettvangur um málefni tengd réttindum, aðgengi og þátttöku í samfélaginu. Dagskráin í heild.

Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 8. nóvember, 2023 10:58