Skáldsagan Hook's Tale
"Endurskoðunar" skáldsagan Hook's Tale

Nýjar sögur um gamlar sögur

Svokallaðar revisionist novels, sem mætti þýða sem „endurskoðunar“ skáldsögur hafa notið talsverðra vinsælda á undanförnum árum. Hér er um að ræða skáldsögur sem taka beint eða óbeint fyrir þekkta sögu eða skáldsögu en segja hana frá öðru sjónarhorni. Margar skáldsagnanna segja sögu einhvers sem er undirmáls í upphaflegu bókinni – eða illmenni hennar – og þá horfir sagan auðvitað allt öðruvísi við. Hér má nefna The Wide Sargasso Sea eftir Jean Rhys, sem segir átakanlega sögu „brjáluðu“ fyrri eiginkonu Rochesters sem verður síðar eiginmaður Jane Eyre í samnefndri skáldsögu Charlotte Bronté, og Wicked – The Life and Times of the Wicked Witch of the West (sem síðar varð margverðlaunaður söngleikur) en þar segir frá lífi viðkunnanlegrar en misskildrar ungrar stúlku sem verður að lokum vonda norn vestursins í Galdrakarlinum í Oz.

Stundum er texti upprunalegu skáldsögunnar notaður en bætt við hann eins og í Pride and Prejudice and Zombies þar sem uppvakningum er fléttað inn í hina kunnu skáldsögu Jane Austen, en stundum er unnið út frá broti úr upprunalegu bókinni eins og í Ahab‘s Wife sem rekur, eins og nafnið ber með sér, sögu eiginkonu skipstjórans í Moby Dick og byggir í raun á einni málsgrein úr upphaflegu bókinni. Enn aðrar fylgja að einhverju leiti söguþræðinum í upprunalegu skáldsögunni en frá nýju sjónarhorni eins og Hook‘s Tale: Being the Account of an Unjustly Villainized Pirate Written by Himself en þar fá lesendur að kynnast ljúflingnum Króki skipstjóra sem segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Pétur nokkurn Pan.  Að síðustu má nefna endursagnir goðsagna eins og Margaret Atwood tekur sér fyrir hendur í Penelopiad en þar er Ódysseifskviða endursögð frá sjónarhóli eiginkonu hans, Penelópu, sem sat heima við vefstólinn meðan hann sigldi um höfin sjö.

Þessari undirgrein bókmennta hefur vaxið fiskur um hrygg á sama tíma og þær raddir gerast háværari sem segja að mannkynssögubækurnar sjálfar hefðu gott af slíkri endurskoðun þar sem þær leggja aðeins áherslu á ákveðna þætti sögunnar – sigur og ósigur í stríðum og landvinningum á meðan þær þegja þunnu hljóði um flesta aðra veruleika. Sögur af landnámi í Ameríku og Afríku hljóta t.d. að hljóma ansi mikið öðruvísi, séu þær sagðar frá sjónarhóli þeirra frumbyggja sem byggðu álfurnar þegar vesturlandabúar stefndu þangað skipum sínum. Einnig hafa fjölmargir bent á fjarveru kvenna í skráðri mannkynssögu sem og efnaminna fólks sem sannarlega eru hluti af sögunni þótt hingað til hafi þau nánast verið ósýnileg í sögunni. Segja má að þetta gat í mannkynssögunni hafi að einhverju leyti verið leiðrétt í mörgum endurskoðunar skáldsögum – auk þeirra sem að ofan eru nefndar má minnast á Longbourn eftir Jo Baker en þar er þjónustufólkið á Longbourn-setrinu í Pride and Prejudice í brennidepli. Þegar best tekst til fá þessar skáldsögur lesandann til að endurmeta gamla textann og bæta jafnvel nýrri vídd og nýjum skilningi við hann. Þannig má segja að um leið og skáldsögurnar hafi skemmtanagildi þá lyfti þær upp röddum sem bókmennta- og mannkynssagan hafi gjarnan þaggað og bendi á þá mikilvægu staðreynd að það er ekki til nein ein rétt eða endanleg útgáfa atburða heldur sé veruleikinn flókin og margradda frásögn.

Flokkur
Merki
UppfærtMiðvikudagur, 10. júní, 2020 12:57
Materials