Smátextar | Tilkynning frá Sérsveitinni

Tilkynning frá Sérsveitinni

Þetta eru skuggalegir tímar sem þarfnast aðgerða. En við erum fjölmennir. Um 20.000 sagði einhver. Og klárir í slaginn. Upplýstir um verkefnið og spenntir. Loftið er rafmagnað. Það tók tíma að vinna sig upp. Tíma að þjálfa mannskapinn. Tíma að venjast næturvinnunni. En við erum þéttur hópur. Höfum staðið vaktina lengi. Í aldir að því er virðist. Upplýst mörg mál. Morðmál. Varpað ljósi á önnur. Fyrsta verkefnið, Lanternarius aðgerðin á Ítalíu, var hálfgerður þrældómur og illa borgað. En dýrmæt reynsla. Og Link Boys fylgdin í Bretlandi. Krefjandi verkefni, undirmannað og búnaðurinn frá miðöldum. Önnur dýrmæt reynsla. En nú er öldin önnur. Við erum ríkisrekin eining. Vel tengdir. Að hluta fyrir allra augum. Að hluta neðanjarðarhreyfing. 

Þótt þið migið utan í okkur, sparkið í okkur, ælið á okkur þá mætum við stálslegnir á vakt. Stólpar samfélagsins. Verndarar. Ljósberar. Teinréttir lofum við 4.000 vinnustundum í baráttunni gegn myrkraöflunum. Galvaskir. Brynvarðir. Galvaníseraðir gegn hvers kyns byltingum. Götuóeirðum. Fjöldasamkomum. Þetta eru skuggalegir tímar sem þarfnast aðgerða en engar áhyggjur. Sérsveitin er vöknuð af sumardvalanum. Við munum lýsa veg þinn í vetur. Ljósastaurar Reykjavíkurborgar.

Höfundur: Unnur María Sólmundsdóttir

Næsti smátexti: Eldur í hjarta