Smátextar | Stelpa

Stelpa

Það var einu sinni stelpa
sem gat allt
hún var klár
fyndin
skrifaði ljóð og sögur
hún var sterk
hún gat sungið
smíðað, málað, skotið úr byssu
svo kom strákur
sem sagðist geta allt betur en hún
hann tók af henni verkfærin
byssuna
lokaði á henni munninum
og tók af henni pennann
stelpan varð að konu
sem kunni ekki neitt
og gat ekki neitt
þá fór strákurinn
sem var orðinn karl
og fékk sér nýja konu

Þegar karlinn var farinn
fann konan mynd af snjöllu stelpunni
hún fann pennann sinn og öll verkfærin
hún opnaði munninn og söng

Höfundur: Ragnheiður Lárusdóttir

Næsti smátexti: Þau