Smátextar | Sóknarmaður

Sóknarmaður

Það er á gangstéttinni við Hlemm, gegnt húsi Stígamóta, sem ég rekst á hann. Geng beint í flasið á honum. Eins og fælin dádýrshind tek ég ósjálfrátt snöggt viðbragð til hliðar og misstíg mig.  Hann grípur um mig og varnar því að ég detti. Ég horfi sem snöggvast á hann. Hann er fallegur ef þú þekkir hann ekki.

Það eru þrjú ár síðan. Ég er ein í byggingunni. Vinn mér inn aura með því að þrífa þennan leikskóla. Mæti klukkan sex á kvöldin þegar allir eru farnir og allt er orðið hljótt. Leikskólinn er upplýstur. Deildirnar fjórar, salerni, matsalur og fataklefar eru í mínum verkahring. Ég geng rösklega til verks. Þetta er ekki það skemmtilegasta sem ég hef unnið við en hefur vanist furðu fljótt. 

Klukkan er að verða níu þegar ég slekk öll ljósin og set öryggiskerfið á. Ég skelli í lás. Ég er sveitt eftir þrifin og hárið á mér er einn óreiðuhnútur á höfðinu. Nóvemberkvöldið er kalt og rakt. Ég geng af stað heim á leið. Gulleit lýsing ljósastauranna flæðir yfir göturnar og gangstéttirnar. Það er frost. 

Ég er í þungum þönkum og gæti ekki að mér þegar maður á hjóli kemur á fleygiferð úr gagnstæðri átt. Hann reynir að stýra framhjá mér og tekst að stöðva hjólið áður en við skellum saman. Hann hendist af hjólinu og út á götuna. Ég hleyp strax til hans og og hjálpa honum upp. Maðurinn hlær. Hlátur hans er mjúkur og þægilegur.

- Þú ert stórhættuleg, segir hann glaðlega.

- Æ, fyrirgefðu, svara ég og lít afsakandi á hann. 

- Heyrðu, ert þú ekki systir hans Arnórs? spyr hann og horfir rannsakandi á mig.

- Jú, svara ég undrandi. Þekkjumst við?

- Nei, reyndar ekki, svarar hann. En þú ert svo lík honum Arnóri að þú getur ekki verið annað en systir hans.

- Hvernig þekkirðu bróður minn?

- Við erum saman í boltanum. Ég er sóknarmaður.

Ég finn strax hvernig ég slaka á og treysti þessum manni algjörlega. Hann þekkir Arnór. Ég virði fyrir mér óvenju fagurt andlit hans. Há kinnbeinin setja sterkan svip á það. Húðin virðist hrein og mjúk. Augun djúp og brún og brosið fær mig til að brosa á móti.

Hann býðst til að fylgja mér heim. Þó að ég þurfi ekki fylgd er freistandi að þiggja hana af þessari hrífandi veru.

Við göngum af stað. Hann er skemmtilegur. Hann spyr mig út í sjálfa mig. Hefur mikinn áhuga á að vita allt um mig. Ég hlæ að fyndni hans. Hann segir að ég hlæi eins og mús. Við göngum hlið við hlið. Hann hávaxinn og dökkhærður og leiðir hjólið sitt. Ég lágvaxin og ljóshærð með óreiðuhnútinn á höfðinu. Stundin er töfrum hlaðin. Hann hefur þessi áhrif á umhverfið og mig. Hólavallakirkjugarður á hægri hönd. Með hans augum breytist allt og fegurð kirkjugarðsins verður þvílík. Mér líður eins og ég sé stödd í einhverri hliðarveröld. 

Við göngum inn í garð gegnt kirkjugarðinum.

- Svo þú átt heima hérna, segir hann.

- Mhm. Ég stelst til að horfa á vangasvip hans. Ég er með nautfiska í maganum. Eins og fiskar með horn stangi mig að innan. Þetta eru engin fiðrildi.

- Takk fyrir fylgdina, segi ég og brosi.

- Mín var ánægjan, svarar hann og brosir á móti.

- Þú biður að heilsa Arnóri, er það ekki? spyr ég.

- Auðvitað, svarar hann. En annars sé ég hann á æfingu annað kvöld. Þannig að á ég ekki bara að skila kveðju frá þér? spyr hann glaðlega.

Áður en ég næ að svara spyr hann hvort hann megi koma með mér inn og nota klósettið.

- Já, auðvitað, segi ég.

Við göngum að hægri hlið hússins að inngangi kjallaraíbúðarinnar. Ég opna og hleypi honum inn. Þar er hlýtt og notalegt. Ég klæði mig úr yfirhöfninni og hann hverfur inn á baðherbergið.

Ég kveiki á geislaspilaranum og áður en varir líða ljúfir, angurværir tónar Loreenu McKennitt um loftið.
Hann kemur inn í stofuna. Stendur og horfir á mig.

- Svo þú fílar Loreenu Mckennitt, segir hann og sest við hlið mér í sófann.

- Já, ég algjörlega dýrka tónlistina hennar, svara ég.

- Þessi diskur hennar er í uppáhaldi hjá mér, segir hann og lygnir aftur augunum.  

Ég verð allt í einu feimin og meðvituð um sjálfa mig. Loftið á milli okkar er rafmagnað. Hann tekur um hönd mína og gælir við lófann. Svona sitjum við lengi, hlustum á tónlistina og kynnumst hvort öðru. Þrír tímar, fjórir tímar líða. Klukkan er 1 eftir miðnætti. Ég hrekk upp af þessari einkennilegu leiðslu sem ég hef verið í. Ég þarf að mæta í tíma í MH eldsnemma í fyrramálið og hér sit ég með ókunnugum manni í rauða sófanum mínum. Í senn bæði heillandi og seiðandi en einnig fífldjarft og óráðlegt. Ég skil ekki hvað hefur komið yfir mig.

- Heyrðu, ferlega næs að spjalla, segi ég, en ég þarf að vakna snemma.

- Ég skil, segir hann og brosir. En nú erum við rétt að byrja að kynnast, heldur hann áfram.     Synd að eyðileggja fullkomið kvöld.

Ég fæ allt í einu dúndrandi hjartslátt. Mér líður eins og þegar ég var lítil og maður frænku minnar heldur utan um mig. Kyssir mig á munninn.  

Hann færir sig nær mér.

-Láttu ekki eins og þú finnir ekki straumana á milli okkar, hvíslar hann.

Ég stend hratt upp og geri mér upp hlátur. 

- Virkilega gaman að kynnast þér en nú þarf ég í alvöru að fara að sofa. Ég titra þegar ég segi þetta og get ekki horfst í augu við hann. 

Hann stendur upp og gengur hægt í áttina að mér. Hann er hávaxinn. Mjög hávaxinn. Hann stendur fyrir framan mig. Ég horfi ofan í gólfið. Ekki lengur 19 ára. Ég er 7 ára. Hann tekur utan um mig. Þrýstir mér að sér og ég er blóm sem kremst ef takið er of þétt. Ég er algjörlega máttlaus. Hann færir mig aftur að sófanum. Leggur mig á hann. Ég loka augunum. Ég er ekki hérna. Ég veit nákvæmlega hvað er að fara að gerast. 

Ég finn að hann færir mig úr buxunum og nærbuxunum. Heyri hann losa beltið á sínum buxum sem detta svo á gólfið. Ég reyni að kyngja munnvatni. Reyni að öskra. Reyni að standa upp. Ég er fullkomlega lömuð.

Hann liggur ofan á mér. Ég á ekki lengur neðri part líkamans. Hann byrjar að athafna sig. Ég kreysti aftur augun. Allt í einu finn ég skerandi sársauka í utanverðum hálsinum. Hann sekkur tönnunum á kaf í hálsinn á mér. Það er þarna sem hjarta mitt hættir að slá. Hann gefur frá sér hávært, dýrslegt öskur þegar hann fær fullnæginguna. Ég ligg og veit nákvæmlega hvernig dádýrinu líður þegar ljónið herpir að hálsi þess með hvössum tönnunum, þar til hjartað hættir að slá.

Höfundur: Katrín Björk Kristinsdóttir 

Næsti smátexti: Bútar