Smátextar | Sagan af brauðinu góða

Sagan af brauðinu góða

Í hverfinu þar sem við bjuggum um tíma var bakarí. Í bakaríinu vann kona sem var ósköp viðræðugóð og notaleg og spjallaði oft við okkur þegar við komum að versla. Við keyptum oft ákveðið brauð sem var til sölu vissa daga vikunnar. Einu sinni sem oftar fór ég að kaupa brauðið og spurði hana hvort maðurinn minn væri kannske búinn að koma og kaupa það - þetta var fyrir tíma gemsanna.     

Konan sagðist ekkert þora að segja lengur eftir að hún lenti í atviki sem hún síðan sagði mér frá.

„Það var einu sinni par eins og þið sem kom oft að versla, ýmist saman eða sitt í hvoru lagi. Einu sinni sem oftar kemur konan og kaupir brauð, stuttu seinna kemur maðurinn og kaupir sama brauðið. Ég sagði því við hann: Konan þín er nýbúin að vera hérna að kaupa brauðið. Þá svaraði hann og var heldur hvass í rómnum: Ég á enga konu.“

Höfundur: Ingibjörg K. Ingólfsdóttir

Næsti smátexti: Spilasögn