Smátextar | GUÐ BLESSI LOFTIÐ.

GUÐ BLESSI LOFTIÐ.

Það gerðist snemma morguns, síðsumars, að ég sat í rauða stólnum í stofunni minni heima og var að gera tvennt. Annarsvegar var ég að lesa andlegt fóður fyrir hugann og sálina en hins vegar, og um leið, var ég að tína upp í mig bæti- efnabelgi, allmarga, í þeim tilgangi að reyna að hressa við lífið í gömlum skrokknum. 

Í textanum sem lá í vinstri hendi mér sagði; „Gerðu þér grein fyrir að þú hefur alltaf allt sem þú þarft, hvenær sem þú hefur þörf fyrir það.“ En hægri hendin stakk einum Multy Stress B-6 belg í munninn. Hann, aftur á móti, gerði sér lítið fyrir, lagðist þversum efst í kokið og neitaði að fara, hvorki upp né niður. Viðbragðskerfi líkamanns brást umsvifalaust við, hér var aðskota hlutur á ferð. Miðtaugakerfið læsti barkanum og hleypti engu lofti niður í lungun. 

Upphófst nú mikil barátta, upp á líf og dauða. Það hafa verið góðar birgðir af súrefni í heilanum því hann varð ofurvirkur, hugsaði mjög skýrt og mjög margt. Fyrst hugsaði hann „Jæja, nú færðu tækifæri til að fara yfir um, ætlarðu að standa við marg ítrekað loforð þitt við sjálfa þig, eða hvað?“ Já, en þetta er ekki heilablæðing eða hjartaáfall með þekktum afleiðingum. Hvað á ég þá að gera? Ég þarf að fá hjálp. Það þýðir ekkert að banka hjá henni Sigríði hérna á móti mér. Hún er örugglega enn í rúminu og heyrnartækin hennar á náttborðinu og göngugrindin, hvar er hún? Ég verð örugglega dauð áður en ég Næ að koma henni til dyra. En Ragnar hér við hliðina á mér? Varla, hann er ekki kominn á fætur, svo er ég líka enn í náttkjólnum og það er svitalykt af mér. Þá er það strákurinn í hinu horninu. Nei, almáttugur. Hann er nýfluttur inn og bara tvítugur og hefur aldrei séð mig. Hann fær sjálfur áfall og veit ekkert hvað hann á að gera. 

Á meðan á öllu þessu hugsanaflóði stóð fann ég máttinn dvína úr líkamanum og B-belgurinn var ekkert að losna, krampinn herpti enn saman kokið og mér var ljóst að ég varð að gera eitthvað strax. Þá var eins og að mér væri sparkað fram á gang og á hurðina hennar Siggu. Ég lamdi harkalega og tók svo í húninn. En viti menn, hurðin var ólæst. Ég æddi inn, sá ekkert fram fyrir mig þar sem ég var komin í keng og á innsoginu. Þá heyrði ég ókunnuga rödd ungrar konu. Henni brá jú í fyrstu en þegar ég rétti fram opinn lófann með nokkrum belgjum í var hún eldsnögg að átta sig á hvað var á seyði og brást hárrétt við. Þarna var þá komin dóttir Sigríðar í nokkra daga heimsókn frá Kaupmannahöfn þar sem hún er starfandi hjúkrunarfræðingur á öldrunar- heimili. Ég var komin niður á hnén og um það bil að detta út þegar kvikindið loksins hrökk upp úr mér, krampinn slepti takinu og loftið flæddi aftur ofan í lungun mín. Minn tími var ekki kominn. Guð blessi loftið. 

Höfundur: Sigurlaug Guðmundsdóttir

Næsti smátexti: Mexíkó