Smátextar | Ef þú legðir við hlustir myndir þú heyra

Ef þú legðir við hlustir myndir þú heyra

Ég get ekki meira. Hjálp! Er einhver sem getur hjálpað mér? Ó, ég bugast... HJÁLP! Hvað þarf eiginlega til þess að þessi auli heyri í mér? Hann hlýtur að vera heyrnarlaus og tilfinningalaus. Já og skilningslaus með stóru essi. 

Ef ég gæti gubbað þá myndi ég gera það. Gubbað öllu þessu ógeði sem er troðið í mig án þess að ég fái að segja mitt álit. Hvort að mér finnist það gott eða hvort að ég hafi einhverjar séróskir. Sjálfsagt skiptir mitt álit litlu, hvað veit ég? 

Hér hef ég alltaf verið og þekki varla neitt annað. Ég minnist þess samt að þetta hafi ekki verið svona fyrir mörgum árum síðan, þegar ég var nýorðin til. Þá var allt miklu betra og ég fékk nákvæmlega það sem ég vildi og þurfti. 

Vá! Ég var næstum búin að gleyma því. Gott að geta yljað sér við þessar gömlu minningar, en mér líður samt illa. Æ! Krampi, hjálp! Nei, það er of seint, ég dey. 

Á! Hver lemur mann þegar maður er að deyja? Láttu mig í friði ég vil ekki meira, stopp! Ég finn lífið fjara úr mér og hugsa bara um að fá loksins frið. 

Nú verður engu þröngvað upp á mig lengur og húsbóndinn dauður, gott. Hann átti það skilið fyrir að sætta sig við endalausa streitu og subbulegt matarræði og þröngva því upp á mig, hjartað sitt. 

Gott á hann, verra með mig.

Höfundur: Oddfreyja H. Oddfreysdóttir

Næsti smátexti: Spurning