Stofan | Má bjóða þér í sturtu á bókasafninu?

Við hittum Mariu-Carmelu Raso og Kateřinu Blahutová til að ræða sköpunarferlið að baki þeirra útgáfu af Stofunni, en þær opna síðustu útgáfu Stofunnar þennan vetur. Þær bjóða í opnun á þeirra Stofu þriðjudaginn 2. maí við sjálfsafgreiðsluvélarnar á fyrstu hæð í Grófinni.

Hvaða stað völduð þið fyrir ykkar Stofu?
Við völdum stað við gluggann á fyrstu hæð þar sem fólk getur skilað bókum. Þessi staður varð fyrir valinu því hann virkar svo opinn, þar er hátt til lofts og við munum nota það í innsetningunni og þetta er staður sem er mjög sýnilegur þeim sem koma á bókasafnið. Á þessum stað er einnig mest flæði fólks. Okkur langar að velja staðinn sem er opnastur almenningi og bjóða fólki að gera eitthvað sem við venjulega gerum í einrúmi og út af fyrir okkur.

Hvað langar ykkur að gera í rýminu?
Við munum setja upp almenningssturtu sem höfðar til margra skynfæra. Innsetningin er í tveimur hlutum and seinni parturinn verður opnaður síðar í maí. Hugmyndin sprettur frá menningarsjokki sem margt fólk upplifir þegar það kemur í fyrsta skipti í sundlaug á Íslandi. Það getur tekið tíma að venjast þessari sundlaugarmenningu og finna leið til að víkka út þægindarammann.

Hvers konar tilfinningu langar ykkur að vekja í ykkar rými?
Okkur langar að fá fólk til að prófa sig áfram og finna leið til að líða vel í aðstæðum sem virka óþægilegar. Að upplifa sig nógu öruggt til að fara út fyrir þægindarammann. Við getum oft notað skynfæri okkar til að láta okkur líða vel (t.d. finna lykt af lofnarblómi, hlusta á hljóð úr náttúrunni, snerta eitthvað mjúkt, hafa kertaljós eða bragða á súkkulaði) og við vonum að þessi innsetning styðji fólk í því. Við vonum að fólk muni finna griðastað í þessu yfirþyrmandi rými þrátt fyrir að vera berskjölduð þar sem hægt er að sjá og heyra í okkur.

Ef þið mynduð breyta einhverju við bókasafnið og koma á nýrri reglu, hver væri hún?
Að koma fyrir fleiri rýmum sem höfða til margra ólíkra skynfæra. Það gætu verið upplifunarrými og staðir til að endurnærast eftir reynslu í erfiðum aðstæðum. Litlir vasar fyrir sér-almenningsrými þar sem hægt er að stýra umhverfinu og þau myndu þjóna mismunandi tilgangi. Ef til dæmis einhver þyrfti að jafna sig eftir erfiðan dag og myndi vilja fá að vera í friði í hádegishléinu eða það væri barn sem væri að ganga í gegnum erfiðleika og foreldrarnir þyrftu rými til að ræða við það í leit að sátt. Slík rými gætu líka boðið upp á örugg rými fyrir fólk sem upplifir ofsahræðslu eða er með taugakerfi sem þolir illa mikið áreiti. Umlykjandi rými sem aftengja okkur við umheiminn í stuttan tíma og veita vellíðan á líkama og sál.

Hvað merkingu leggið þið í hugtakið vellíðan og hvernig langar ykkur að miðla því, óháð tungumáli, á opnun ykkar Stofu?
Ætli við séum ekki að spyrja okkur að því hvað vellíðan felur í sér í þessu verkefni – er það forsenda þess að líða vel að þú að upplifir öryggi? Við þurfum stundum að upplifa óþægindi til að geta vaxið, en spurningin er hvort við getum fundið leið til að láta okkur líða vel í aðstæðum sem eru óþægilegar.

Fyrir mér, segir Maria-Carmela, þá getur vellíðan þýtt marga hluti, en sérstaklega tengi ég það við dekkri staði þar sem lýsing er lítil og ég finn mismunandi lyktir. Ég elska umlykjandi upplifanir og að vera fær um að fara í draumaland eða stíga inn í hliðarveruleika. Mér finnst það sem vekur oft ugg hjá fólki eða því finnst venjulega skuggalegt, það finnst mér notalegt. Ég veit ekki af hverju, en mig langar að kanna það frekar.

Fyrir mér, segir Kateřina, þá upplifi ég vellíðan þegar ég fer í heita sturtu og á stund út af fyrir mig. Hitinn frá vatninu á líkamanum, mýkt og áferðin á handklæðinu, góð lykt og að upplifa mig endurnærða. Innsetningin býður upp á þessa þætti en spyr á sama tíma hvort við séum sveigjanleg með okkar þægindaramma og getum aðlagað okkur að ólíkum aðstæðum.

Frekari upplýsingar
Martyna Karolina Daniel | Sérfræðingur fjölmenningar
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is

Merki
UppfærtFimmtudagur, 1. júní, 2023 11:25