Gleðin í því smáa | Ragnheiður
Mikið var spennandi tækifæri fyrir mig að fá að skoða mig um í óskiljanlegum hugarheimi elstu systur minnar, Ragnheiðar. Hún rumskaði aðeins þegar ég liðaðist eins og reykur í gegnum augnkrókinn og inn í höfuð hennar, hún fann smá kitl eins og eftir fjöður en vaknaði ekki.
Magnað að komast þarna inn í troðfull mjúk rýmin án mikilla vandræða. Átta mig á því að heili systur minnar hefur margar vistarverur. Það sem hún Ragnheiður systir fær á heilann stendur sjaldan stutt við.
Ég kom mér vel fyrir og blaðaði í minningum rétt eins og ég væri að skoða myndaalbúm frá fyrri tíð. Ég fletti ögn í upplausn í leit að sérstaklega afdrifaríku kvöldi, það var kvöldið fyrir átta ára afmælisdaginn minn. Eftir þau tímamót breyttist samband okkar Ragnheiðar; hún varð fáskiptin og fámál. Ég stóð lengi í þeirri trú að henni væri sérstaklega illa við átta ára. En annað kom í ljós þegar ég skoðaði atburði kvöldsins.
Hún skrækróma í þannig pati að tyggjóplöturnar tvær nánast hrökkva ofan í kokið á henni: Elsku mamma má hún ekki gista hjá ömmu í kvöld? Þú veist hversu mikil leiðindaskjóða hún getur verið (hér á hún við mig). Við vinkonurnar ætlum að vera svo duglegar að læra í kvöld.
Þetta er reyndar helber lygi
Áfram suðar hún: Gerðu það mamma gerðu það!
Nei, hún situr uppi með mig og er ekkert óhóflega kát. Við systur horfum undir iljarnar á mömmu þegar hún hendist út um dyrnar. Ég er kát, Ragnheiður súr.
Ég man hve dáleidd ég horfði á mömmu setja upp andlitið áður en hún fór til vinnu. Hverning hún varalitaði sig, alltaf með sömu snöggu vélrænu hreyfingunum. Hvernig hún nuddaði saman vörunum sem endaði með háum smellum. Ég veit ekki af hverju þessi athöfn mömmu minnti mig alltaf á það hvernig hún skrældi kartöflur. Það gerði hún af mikilli snilld, fljót og fumlaus svo small í þegar þær lentu í stálskálinni, óaðfinnanlega skrældar. Heyrði þessa háu smelli alls staðar, alla mína litríku bernsku.
Mamma vann á öldurhúsum borgarinnar. Sama á hverju gekk og þó heimilið liti út eins og eftir Örlygsstaðabardagann lét hún það ekki slá sig út af laginu og áfram fór hún í vinnuna, með bros á fagurlega lituðum vörunum.
En aftur að kvöldinu afdrifaríka. Ég ligg á gægjum og heyri Ragnheiði segja: Stelpur ekki færa glasið!
Hún opnar hurðina á nefið á mér og segir sykursætri röddu: Stína mín … ef þú ferð að sofa skal ég leyfa þér að búa til karmellur í fyrramálið ... Ha? Komdu sæta mín þú ert uppáhalds … komdu, vinkonur mínar bíða eftir mér við þurfum að fara að læra.
Sure kiddo!
Ég þykist bíta á agnið og systir mín dregur mig beint í bólið. Ég ligg kyrr þar óþreyjufull í stutta stund sem ætlar aldrei að líða. Læðist létt á tá fram á gang, legg eyrað við hurðina og gægist annað slagið í gegnum skráargatið. Þarna er eitthvað virkilega spennandi að fara að gerast.
Ég sé glitta í Ragnheiði. Hún ávarpar borðið hátíðlega og segir: Er andi í glasinu? Grípur síðan blýant og blað og skrifar af miklu kappi. Glasið þeytist milli stafanna sem skrifaðir eru í hring á stóra brúna örk sem límd er á borðið.
Eftir atganginn segir hún, frekar snúðug: Ég held að langa, langa, langamma mín, Ragnheiður, hafi komið í glasið ... Mér til mikilla vonbrigða les hún skilaboðin í hljóði.
Ég man svo vel hvað ég var forvitin og hræðilega svekkt yfir því að hafa ekki fengið að heyra hvað fram kom kvöldið forðum.
Svona voru skilaboðin: ELSKU BESTA NAFNA MÍN, SKJÓÐAN HÚN LITLA SYSTIR ÞÍN SEM KÍKIR Í GEGNUM ÖLL LÍFSINS SKRÁARGÖT ER OG VERÐUR TRÚLEGA ENDALAUST SNUÐRANDI MEÐ NEFIÐ Á STÖÐUM SEM ÞÚ GETUR EKKI ÍMYNDAÐ ÞÉR. GEYMDU ÞETTA NÚ MEÐ ÞÉR VINA OG SKILAÐU HJARTANS KVEÐJUM TIL BLESSAÐRAR MÓÐUR ÞINNAR. MIKIÐ SEM HÚN ER NÚ DUGLEG MEÐ BARNAHÓPINN SINN.
Í óljósri móðu frá röku hægra heilahveli systur minnar verður mér ljóst, mér til skelfingar, að það gæti orðið flókið að finna leiðina til baka.
Kristín Garðarsdóttir
Næst: Aðventa MCMLXXXI