Gleðin í því smáa | Aðventa MCMLXXXI

Draugar fortíðar voru farnir að skjóta upp kollinum í huga hennar oftar og sterkar en áður. Þegar elsta barnabarnið hennar varð fyrir fólskulegri árás í sumar sem leið, sem barnið til allrar hamingju lifði af, hvolfdust yfir hana minningar um árásina sem hún varð fyrir 28 ára gömul, nýfráskilin, einstæð móðir í Kaupmannahöfn.

Það var miður desember í byrjun níunda áratugarins. Börnin farin til Íslands með afa og ömmu sem höfðu millilent í Köben á leið sinni frá Spáni eða einhvers staðar frá. Hún hafði ekki getað hugsað sér að halda jól ein með börnunum og pabbinn í næstu götu í ríðinga- og drykkjualgleymi. Skítsama um allt.

Svikin og sorgmædd tók hún sig saman í andlitinu og fór út í desembermyrkrið þennan eftirmiðdag. Fór á gamla vertshúsið þeirra og fékk sér jólabjór. Þar sat hún ein, drakk og reykti á þessum furðulega jólaskreytta, gamaldags bar. Innréttingarnar samanstóðu af fimm til sex básum meðfram öðrum veggnum. Veggurinn alsettur stórum, gömlum og máðum speglum, þar sem sáust ógreinilegar myndir af þekktum kennileitum Parísarborgar og hringinn í kringum speglana skinu marglit jólaljós. Stemningin átti að minna á heimsborgina.

Hún var nýbúin að ljúka náminu í félagsráðgjöfinni en var alveg ráðalaus þegar kom að henni sjálfri. Vildi bara drekka og gleyma. Hún hafði verið svikin. Í hennar huga hafði henni verið hent. Hún skammaðist sín ofboðslega. Kunningi hennar kom inn og settist hjá henni. Hann var alveg í rusli því kærasti hans, sem var nota bene vel liðinn félagsráðgjafi, hafði ekki viljað hafa hann með í júlefrokost af einhverjum ástæðum. Ungi maðurinn var pirraður og reiður yfir því hvað allt var vitlaust sem hann lenti alltaf í.

Þarna sátu þau svo, unga yfirgefna konan og kornungi reiði homminn og drekktu sorgum sínum lungann úr deginum, þar til hún þurfti að drífa sig að hitta vinkonu sína. Þær ætluðu að borða saman á Tunglinu en þar var hægt að fá hollan og ódýran mat. Ungi maðurinn slóst í för með henni, en vinkonan lét sig hverfa fljótlega eftir matinn, var ekki ánægð með óvænt kompaníið. Þegar hún sjálf svo vildi drífa sig heim eftir matinn, spurði hann hvort hún ætti ekki bjór heima, hann vildi spjalla lengur og drekka einn bjór í viðbót heima hjá henni. Þau settust við eldhúsborðið, þar sem húsfriðurinn hafði hríðskolfið nokkrum vikum fyrr þegar pabbi barnanna tilkynnti henni að hann ætlaði að skilja við hana. Hún opnaði tvo Tuborg. Hún var þreytt á sál og líkama, búin að drekka allt of mikið, vildi bara fara að sofa, nennti þessu ekki lengur og sagði: Klára þú bjórinn þinn í rólegheitum og skelltu svo bara í lás þegar þú ferð.

Hún sá hann ekki aftur fyrr en við réttarhöldin.

Þegar hann var spurður hvað honum hefði gengið til með árásinni, sagðist hann hafa snöggreiðst þegar hún nennti ekki lengur að tala við hann. Honum fannst hann enn og aftur niðurlægður og hafði hugsað: Sú er góð – nennir ekki að tala við mig lengur – hvað heldur hún eiginlega að hún sé? Hann hafi því ruðst inn í svefnherbergið, þar sem hún lá og svaf eins og ekkert væri sjálfsagðara og fundist það ókurteisi og niðurlægjandi af henni, hann hafi sko ætlað að láta hana heyra það. Hann sagðist þó alls ekki hafa ætlað að gera henni mein. Það sem samt gerðist var að hann settist klofvega yfir hana og áður en hann vissi af var hann byrjaður að lemja hana í andlitið með vekjaraklukku sem brotnaði og glerbrotin stungust inn í andlitið á henni. Hún hafði greinilega misst meðvitund en hann varð alveg stjórnlaus og tók hana hálstaki þar til honum virtist hún vera hætt að anda.

Hann var örmagna, kófsveittur, alblóðugur og ber að ofan – rauk út í kuldann og greip með sér svarta frakkann hennar með skinnkraganum. Fór í frakkann hennar og settist stjarfur inn á barinn sem þau höfðu hist á fyrr um daginn. Vinkonan frá Tunglinu tók eftir unga manninum frá því fyrr um daginn, þar sem hann sat út í horni. Hún þekkti strax frakkann og spurði hvað væri að sjá hann og af hverju hann væri í frakkanum hennar. Þegar hann svaraði því engu en starði trylltu augnaráði fram fyrir sig, hringdi vinkonan á lögregluna sem braut sér leið inn í íbúðina.

Amman hefur nú sagt barnabarninu sínu að ofbeldisskömmin geti þvælst fyrir lífinu áratugum saman.


Lára Helga Sveinsdóttir

Næst: Vá