Margt smátt | Lokkar
Lokkar
Háskólatorgið iðaði af lífi. Við Dadda vorum svo heppnar að næla okkur í sæti við borð á miðju svæðinu svo við sáum vel til hljómsveitarinnar. Í stað kaffibollanna á borðinu hefðum við frekar viljað hafa rauðvínsglös að skála í. Það gátum við ekki leyft okkur. Vorum báðar með heimili og ég var á bíl.
Er þetta ekki æðislegt Dadda, að vera í Háskólanum og fá ókeypis tónleika? sagði ég uppnumin.
Jú, við höfum það betra en margur annar Una mín.
Og það meira að segja hljómsveitin Hjaltalín, hélt ég áfram og saup á kaffinu.
Já Hjaltalín er stórkostleg hljómsveit, samsinnti Dadda.
Ég skimaði yfir mannfjöldann sem myndaði þétta þvögu utan við borðin. Að hverju var ég að leita? Sá ekki neinn sem ég kannaðist við. Þetta samfélag var allt öðru vísi en ég hafði lifað í til þessa. Búin að vera á vinnumarkaði í marga áratugi og flestir samferðamenn komnir langleiðina á eftirlaun. Hann stóð yst í áhorfendaskaranum. Dökkt, krullað hárið nam við axlir og rammaði vel inn skarpa andlitsdrættina og fallegar, viðkvæmnislegar varirnar. Ó hvað mig hefur alltaf langað til að renna fingrunum í gegnum svona karlmannshár.
Sérðu þennan, hvíslaði ég að Döddu og kinkaði kolli í átt til kynþokkafulla karlmannsins.
Ertu ekki í lagi, hvíslaði hún lágt, hann er allavega þrjátíu árum yngri en þú.
Ég yppti öxlum og brosti.
Það vantaði samt smá gljáa á hárið á honum. Ekkert mál að breyta því með góðu sjampói og næringu. Maðurinn minn er með mjög stíft, slétt hár og hefur alltaf verið stuttklipptur. Einu sinni lét hann setja í það permanent þegar það var í tísku. Við þann gjörning varð hárið ennþá stífara. Þessi mætti samt hafa örlítið meiri og dekkri skeggrót. Örugglega útlendingur, heldur fyrir munninn þegar hann geispar. Tekur næturvaktir á hóteli með skólanum. Ég hrökk upp úr hugleiðingum mínum við dynjandi lófaklapp áheyrendanna. Tónleikarnir búnir. Fólkið var fljótt að tínast út. Þarna stóð hann upp við vegginn á bóksölunni. Rólega þræddi hann lítil heyrnartól upp í gegnum hálsmálið á joggingpeysunni og potaði þeim í eyrun. Setti upp hettuna á hermannagrænu úlpunni og gekk út með hendur í vösum. Um leið sveif gult post-it blað á gólfið.
Dadda komum, sagði ég og stóð upp, ég ætla að elta hann. Ég flýtti mér að ná í gula blaðið á gólfinu og leit á það.
Una, þú ert ekki í lagi. Hún var komin alveg upp að mér. Hvað stendur á þessu blaði?
Einhverjar tölur sjáðu, hvað heldurðu að þetta þýði? Ég sýndi henni snepilinn.
Þú heldur þó ekki að þetta sé eitthvað mikilvægt?
Það getur alveg verið það, kannski niðurstaða úr einhverju verkefni, sjáðu 23, 2 eða 5 og einn ólæsilegur stafur. Gæti verið ell eða einn og svo V eða U, en við þurfum að drífa okkur, sagði ég og skundaði í átt til útidyranna.
Við vorum nokkra stund að koma okkur út í bíl, en sáum að hann hélt í austurátt út á göngustíginn meðfram Hringbrautinni.
Þú manst að keyra mig upp á Kjartansgötu til að ná í bílinn, sagði hún og leit á mig einbeitt á svip.
Já já, ég man það, svaraði ég spennt um leið og ég bremsaði við rautt ljós. Við keyrðum eins hægt og við gátum til að geta fylgst með honum. Áfram hélt hann eftir göngustígnum en ég játaði mig sigraða þegar ég þurfti að beygja upp á Snorrabraut.
Þetta var nú virkilega gaman sagði Dadda þegar hún kvaddi á Kjartansgötunni.
Já takk fyrir samveruna, heyrumst á morgun, ansaði ég og andvarpaði.
Ég beygði inn á Rauðarárstíg, upp Flókagötu og út í Lönguhlíð, þá sá ég hann ganga upp fyrir fjölbýlishús í Lönguhlíðinni. Hjartslátturinn fór upp úr öllu valdi og ég varð hálf máttlaus. Eftir að hafa lagt bílnum á bílastæði blokkarinnar hikaði ég. Fjórir stigagangar, fjórar hæðir. Engin vísbending um hvar hann hafði farið inn. Ég ákvað að taka þetta verkefni föstum tökum, gekk inn í fyrsta stigaganginn, númer 19, og leit á dyrabjöllurnar. Ekkert útlenskt nafn. Í næsta stigagangi var eitt útlenskt nafn, Tomasz Krickic, sem ég áleit að væri pólskt eða rússneskt. Nei, þetta var ekki hann. Ég hafði á tilfinningunnni að hann væri Spánverji, samt hafði ég ekki séð litinn á augum hans. Flestir Spánverjar eru með brún augu, að minnsta kosti þeir þjónar sem ég hafði kynnst fyrir mörgum árum á Mallorca. Spennan hélst enn í maganum. Í þriðja stigaganginum, þeim númer 23, sá ég nafnið Carlos Arrenas. 2. hæð t.v.. Þetta hlýtur að vera hann. Ég dró gula miðann upp úr vasanum. 23, 2 t.v. og brosti örugg með sjálfri mér. Ég hringdi bjöllunni. Sama tilfinning kom yfir mig og þegar ég var 12 ára og bankaði á hurð að spyrja eftir strák og var alveg að skíta í buxurnar af hræðslu. Við hvað var maður eiginlega hræddur? Strákurinn var ekki heima og ég var rosalega skúffuð yfir að hafa eytt allri þessari spennu í ekki neitt.
Ég heyrði karlmannsrödd í dyrasímanum. Halló.
I think you lost a piece of paper in the University today, sagði ég ákveðin.
Þetta er allt í lagi, ég tala íslensku, gjörðu svo vel. Um leið heyrðist suð og ég fór inn. Ég gekk frekar hratt upp tröppurnar og staðnæmdist fyrir framan hurðina á annari hæð til vinstri og bankaði.
Dyrnar opnuðust. Þarna stóð hann með rauðhært stelpuskott í fanginu. Hún hélt á gulu snuði og bablaði dudda, dudda og sveiflaði því í áttina til mín. Ég teygði höndina á móti henni. Stelpan snéri sér þá snöggt undan svo snuðið flæktist í hári hans. Á svipstundu rykkti hún fast og hreykin rétti hún mér hárkolluna með dinglandi gulu snuði.
Höfundur: Kristjana Unnur Valdimarsdóttir