Margt smátt | Gamli maðurinn
Gamli maðurinn
Gamli maðurinn sat við eldhúsborðið og horfði út um horngluggann. Stór og sterkbyggð höndin huldi nærri því kaffikönnuna hans og honum þótti ylurinn góður, hann naut þess hvernig hann læddist upp eftir handleggnum og við hvern sopa blómstraði ylurinn í beinaberu brjósti hans. Undan uppbrettri rauðköflóttri skyrtunni stóð trosnuð ermi nærbolsins og á henni mátti sjá afrakstur erfiðisvinnunnar sem hann hafði unnið um þennan napra morgun, svitabletti og moldarskít. Gamli maðurinn greip lifrarpylsusneið af diski, braut hana í tvennt og stakk upp í sig öðrum bitanum. Hann tók upp lifrarpylsumylsnu með fingurbroddi af snjáða plastdúknum sem huldi borðið, dúknum sem einu sinni hafði verið rauður eins og blóð verkamannanna sem streymdi í stríðum straumi fyrir betri veröld í sósíalísku löndunum. Nú var öldin önnur og blóðið upplitað og horfið. Nú voru einungis svartar sálir auðvaldssinnanna til og þær fitnuðu eins og púkinn á fjósbitanum í bölbænaflaumi auðhyggjunnar. Þetta var svo sannarlega breytt veröld. Gamlir verkamenn þurftu enn að vinna í sveita síns andlits og nutu lítils af. Hann var þó heppinn með að halda heilsunni, o jú, jú.
Hann leit snögglega til vinstri hliðar, fannst hann verða var Stínu sinnar að slengja grautardisknum á borðið fyrir hann. En á borðinu stóð enginn grautardiskur, bara hálftómur kanelsykurstaukur og diskur með lifrarpylsusneiðum. Og hún Stína var löngu farin frá honum, þótt hún væri nærri. Hann leit aftur út um gluggann og nú í kirkjugarðinn fyrir austan hús. Hún var ekki svo langt frá, blessunin. Það brakaði í gömlum trébekknum þegar hann andvarpaði og hallaði sér aftur á bak. Það kom far á óhreint handarbakið þegar hann hafði strokið því eftir vanganum. Svona hafa nú tár alls kyns gildi, o jú jú.
Hann lokaði augunum andartak og heyrði róandi tikktakkið í eldhúsklukkunni. Hann heyrði næstum því Stínu sína vera að ganga frá pottum, pönnum og diskum á meðan hún sönglaði lágt með sér án þess að hægt væri að greina orðaskil. Hann brosti með sjálfum sér þegar hann fann söknuðinn rísa innra með sér. Nú styttist fjarlægðin á milli okkar, Stína mín. Og best að klára verkið sem hófst svo snemma í morgun, þennan kalda og napra morgun.
Hann tæmdi kaffikrúsina sem hann hafði sogið allan ylinn úr og lagði undirskál yfir diskinn með lifrarpylsusneiðunum til að hylja þær fyrir spikfeitum fiskiflugunum sem bjuggu allt árið um kring í þessu litla vinalega eldhúsi. Hann mjakaði sér af bekknum og stóð upp, gekk að vaskinum og setti kaffikrúsina í hann og gekk svo út. Vinnan bíður ekki. Og hún göfgar manninn, heyrði hann Stínu sína svara til baka.
Þegar hann gekk áleiðis að moldarbingnum þar sem skóflan stóð þráðbein og beið hans, tók hann eftir svartklædda manninum sem virtist bíða hans. Er nú karlinn að fara að kvarta undan hægagangi, velti gamli maðurinn fyrir sér og fór sér að engu óðslega. Þegar hann kom að skóflunni, bauð hann manninum góðan daginn og kippti henni upp. Hann sneri sér undan og stökk ofan í grunnan skurðinn og hélt áfram að moka til að dýpka skurðinn. Svitinn fyllti hrukkurnar á enninu og rann eftir þeim niður grannar kinnarnar. Gamli maðurinn þurfti að taka sér hvíld annað slagið til að þurrka framan úr sér með erminni, svo fólk myndi ekki að halda að hann væri að gráta. En sannleikurinn var samt sá að það læddust með nokkur tár þegar hann hélt að enginn sæi til. Ekki að það væri eitthvað fólk í kring um hann. Svartklæddi maðurinn var jú enn þarna en annars sá hann engan. En hann vissi sem var að þegar hann komst í vinnuham, þá tók hann ekki svo mikið eftir umhverfinu, það eina sem fyllti hugann var að vinna og vinna vel. Því var betra að vera viðbúinn og láta ekki sjá sig grátblautan í andlitinu.
Hann hugsaði til þess að þetta erfiði væri hjóm eitt hjá því að fá hana Stínu sína aðeins nær sér. Það var ekki oft nú á dögum sem presturinn leitaði til hans en þegar grafarinn er handleggsbrotinn, þá er leitað til vanra manna. Vandaðra manna, eins og sá svartklæddi hafði komist að orði. Og gamla manninum stóð málið nærri, það var ekki oft sem það þurfti að færa grafir til og Stína hans myndi liggja nær húsinu þeirra, nær honum. Auk þess gæti kirkjan greitt honum eitthvað smáræði fyrir vinnuna. Gamli maðurinn hafði ekki sýnt það þá en honum þótti vænt um að vera beðinn um þetta. Og hann hefði alls ekki viljað að neinn annar byggi Stínu sinni lokahvíluna. Hann ákvað að taka sér hlé og klöngraðist upp úr rúmlega metra djúpri gröfinni. Hann skimaði um eftir þeim svartklædda og gekk í átt til hans.
Síra Magnús, er þetta nógu djúpt? En það var ekki síra Magnús sem sneri sér við. Svartklæddi maðurinn gekk til hans og kinkaði kolli.
Þetta er nóg, o jú jú. Hann lagði hægri höndina á öxl gamla mannsins og brosti. Bak við svartklædda manninn sá hann í Stínu sína, unga, glaðlega og kvika. Honum brá. Svartklæddi maðurinn hló við. Nú er engin fjarlægð á milli ykkar Stínu þinnar lengur, Guðmundur minn. Og þú átt hvíldina skilið, vinur.
Höfundur: Sigurður Haraldsson