
Um þennan viðburð
Sýning | Ljósbrotið fræ
Sýningin Ljósbrotið fræ - Hildur Erna Villiblóm sýnir í Spönginni.
Hildur Erna Villiblóm Sigurjónsdóttir fæddist í Mosfellsbæ árið 1992 en ólst að mestu upp í Reykjavík. Hún stundaði listnám í menntaskóla og fluttist síðan til Flórens á Ítalíu, þar sem hún útskrifaðist með BA gráðu í ljósmyndun og nýmiðlun árið 2016. Eftir að hafa lokið námi bjó hún í London í nokkur ár en sneri svo aftur til Íslands og settist að í Vesturbænum árið 2020.
Hildur Erna sérhæfir sig í ljósmyndun og myndvinnslu með íblandaðri málningu, teikningu og skrifum. Í gegnum linsuna kannar hún oftast kvenlíkamann og fangar þemu eins og sjálfsmynd, umbreytingu og hráan kjarna hins jarðneska holds.
Einstök nálgun hennar ögrar hefðbundnum hugmyndum um fegurð og býður þannig áhorfendum að finna hana í hinu óvænta og óvenjulega. Í gegnum árin hefur Hildur Erna unnið við fjölbreytt verkefni, þar má til dæmis nefna hönnun bókarkápa og veggspjalda og nú seinast verk fyrir plötuumslag tónlistarmannsins Kaktus sem kom til með að vinna Íslensku tónlistarverðlaunin og FÍT verðlaun í flokki tónlistargrafíkar.
Hún hefur tekið þátt í samsýningum í London og Edinborg, en eftir að hún flutti heim hefur hún haldið tvær einkasýningar; í Gallerí Gröf árið 2022 og í Lólu Flórens árið 2023, auk þess að taka þátt í samsýningu í Flæði Gallerí árið 2023.
Sýningaropnun verður föstudaginn 5. desember.
Nánari upplýsingar veitir:
Halldór Óli Gunnarsson
Borgarbókasafninu Spönginni
halldor.oli.gunnarsson@reykjavik.is | 411 6241
Hildur Erna Villiblóm Sigurjónsdóttir
hildurernaa@gmail.com