Læsi á stöðu og baráttu kvenna | DAGSKRÁ

DAGSKRÁ Í TILEFNI KVENNAÁRS 2025 - í vinnslu...

The Day Iceland Stood Still | Kvikmyndasýning, ljóðaupplestur og erindi
Bókasafn Reykjanesbæjar | 21. september kl. 15:00 - 17:00

Í upphafi mun Gunnhildur Þórðardóttir flytja ljóð fyrir gesti. Eftir sýningu myndarinnar mun Hrafnhildur Gunnarsdóttir, handritshöfundur og aðalframleiðandi, spjalla við gesti um ferlið á bak við gerð kvikmyndarinnar. Viðburður á Facebook.

ÉG ÞORI! ÉG GET! ÉG VIL! - Sýning á myndum úr samnefndri bók eftir Lindu Ólafsdóttur
Borgarbókasafnið Grófinni | 4. október - 15. nóvember
Boðið verður upp á smiðjur fyrir börn á sýningartímanum.

Svövustund | Erindi og upplestur
Bókasafn Hafnarfjarðar | 4. október kl. 13:00 - 15:00

Sjöfn Asare, bókmenntafræðingur og hluti Lestrarklefans, heldur fræðsluerindi um þessa stórmerkilegu og afkastamiklu konu. Eftir það lesa María Thelma og Bergdís Júlía, hjá Spindrift Theatre, nokkrar smásagna Svövu. Í framhaldi af þessum viðburði munu gestir safnsins geta notið hljóðefnis, mynbandsupptakna og prentefni tengt Svövu, verkum hennar og afrekum. Sjá viðburðinn á Facebook.

Smiðja og sögustund | Við þorum, getum og viljum!
Borgarbókasafnið Grófinni | 5. október kl. 13:30 - 15:00

Rit- og myndhöfundurinn Linda Ólafsdóttir heldur smiðju fyrir fjölskyldur í tengslum við sýningu á frummyndum úr bók hennar ÉG ÞORI! ÉG GET! ÉG VIL! 

Vönduð eru verkin skráð
Héraðsbókasafn Rangæinga | 6. - 15. október

Samstarf Héraðsbókasafns Rangæinga og Héraðsskjalasafns Rangæinga og V-Skaftfellinga
Sýning á bréfum, dagbókum og myndum Kristínar frá Keldum og Önnu frá Brúnum. Á sama tíma verður sögusýningin „Kvennafrí og Kvennasögusafn í 50 ár“ á safninu. Sjá viðburðinn á Facebook.

Lesum og föndrum á bókasafninu
Menningarmiðstöð Hornafjarðar | 11. október kl. 13

Við lesum saman bókina Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur sem fjallar um Veru og mömmu hennar sem segir okkur frá 24. október 1975, deginum þegar íslenskar konur tóku sér frí, gengu út af heimilum sínum, skólum og vinnustöðum og kröfðust jafnréttis og breytinga. Í framhaldinu verður spjallað um efni bókarinnar og föndrað. Verkefnið er styrkt af SASS og Sóknaráætlun Suðurlands. Sjá viðburðinn á Facebook

Kennslukonur í Húnavatnssýslum: frá Húsmæðraskólanum á Ytri - Ey til Kvennaskólans á Blönduósi | Ljósmyndasýning og þemavika
Héraðsbókasafn, Héraðsskjalasafn og Ljósmyndasafn A-Húnavatnssýslu | 17. - 24. október

Sýnt verður úrval af ljósmyndum og æviágrip kvenna sem höfðu mikilvægt hlutverk í samfélaginu í tengslum við kennslu, bækur og lestur. Einnig kennara sem fóru erlendis í nám og athafnakvenna sem voru með eigin rekstur, til dæmis bókabúð! 

Móðir, kona, meyja
Amtsbókasafnið á Akureyri | 18. október kl. 14:00 - 15:00
Sýnt verður brot úr verkinu Móðir, kona, meyja eftir umskiptinginn Sesselíu Ólafs.
Verkið fjallar um þrjár konur sem þekkjast ekki en hittast í bústað til þess að lesa. Þær eru á ólíkum aldri, ein nýlega útskrifuð úr menntaskóla, ein að nálgast fertugt og ein um sextugt. Sú yngsta elskar að dansa, sú fertuga vill helst bara lesa í friði og sú elsta er spennt að kynna hinum ljóð og sögur íslenskra skáldkvenna. Engin þeirra er alls kostar sátt við sínar aðstæður en þær komast smám saman að því að þær geta lært ýmislegt hver af annarri.

Bókmenntaganga | Saga og raddir kvenna
Borgarbókasafnið Kringlunni | 19. október kl. 15:00 - 16:30

Gönguna leiða Auður Anna Magnúsdóttir framkvæmdastýra Kvenréttafélagsins og Hólmfríður María Bjarnardóttir, sérfræðingur hjá Borgarbókasafninu.
Kvenréttindafélag Íslands og Borgarbókasafnið leiða saman hesta sína með bókmenntagöngu sem verður svo aðgengileg til láns á bókasöfnunum. Galdurinn við þessa göngu er að hún þarf ekki eiginlegan leiðsögumann en í þessu tilfelli munu hönnuðir verkefnisins leiða gönguna. Upplestrar eru í forgrunni og þátttakendur göngunnar eru hvattir til þess að taka þátt í því að lesa upp. Gangan er því bæði samverustund og skapandi upplifun.

„Ég vild´ég væri Pamela í Dallas“
Bókasafn Héraðsbúa | 19. október kl. 15:00 - 17:00

Fram koma: Gréta Sigurjónsdóttir úr hljómsveitinni Dúkkulísurnar, Halla Kristjánsdóttir úr hljómsveitinni Without the balls og Ína Berglind Guðmundsdóttir tónlistarkona og nemi í ME.
Flutt verða lög frá ýmsum tímabilum, textarnir verða síðan lesnir upp til að skoða hvort finna megi í þeim skírskotanir í samtímann, tíðarandann og kvennabaráttuna. Sjá viðburðinn á Facebook.

Ég þori! Ég get! Ég vil! - málþing og vinnustofa fyrir 9. og 10. bekkinga
Grunnskóli Hornafjarðar
 | 20. október
Í upphafi málstofunnar verður bókin Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur kynnt fyrir ungmennunum og í kjölfarið mæta tvær sterkar konur á svæðið og ræða við þau um bakgrunn sinn og tengingu við málefnið. Sú fyrri er Ragnhildur Jónsdóttir sem meðal annars ræðir um SKÖSSIN! Samtök kvenna í Austur-Skaftafellssýslu. Seinni konan sem ræðir við ungmennin er Eyrún Fríða Árnadóttir, kynjafræðingur og forseti bæjarráðs.  Að erindunum loknum fá ungmennin stutta kynningu á jafnréttisáætlun sveitafélagsins. 

Kvenréttindabaráttan: Listasýning – samstarfsverkefni Héraðsbókasafnsins og nemenda í Hvolsskóla
Hvolsskóli | 22. október
Héraðsbókasafn Rangæinga | 23. - 31. október

Til sýnis verða textaverk nemenda 5. og 6. bekkjar og kvikmyndakassi 7. bekkjar. Við opnunina syngja nemendur 9. bekkjar lagið „Áfram stelpur“. Sjá viðburðinn á Facebook.

Smiðja og sögustund | Við þorum, getum og viljum!
Borgarbókasafnið Grófinni | 23. október kl. 16:00 - 17:30

Rit- og myndhöfundurinn Linda Ólafsdóttir heldur smiðju fyrir fjölskyldur í tengslum við sýningu á frummyndum úr bók hennar ÉG ÞORI! ÉG GET! ÉG VIL! 

Kvennakraftur í Kópavogi
Bókasafn Kópavogs | 23. október kl. 17:00 - 19:00

Málþing til heiðurs þremur öflugum konum sem störfuðu og/eða bjuggu í Kópavogi, þeim Huldu Dóru Jakobsdóttur, Gerði Helgadóttur og Ástu Sigurðardóttur.
Fundarstjóri er Arndís Þórarinsdóttir. Sjá viðburðinn á Facebook.

Ung, há, feig og ljóshærð; hvunndagshetjan Auður Haralds
Safnahús Borgarfjarðar | 23. október kl. 20:00

Umsjón: Sigrún Elíasdóttir sagnfræðingur og rithöfundur sem stýrir sagnfræði hlaðvarpinu Myrka Ísland og Anna Dröfn Sigurjónsdóttir viðmælandi sem hlýðir á fróðleik.
Skáldkonan Auður Haralds var þekktust fyrir kaldhæðnar lýsingar á mönnum og málefnum, sem stundum féllu í grýttan jarðveg samtímans. Ekki síst vegna þess að hún nýtti húmorinn óspart til að gera grín að ýmsum samfélagsmeinum sem sérstaklega snéru að konum. Sjá viðburðinn á Facebook.

Að atvinnu og í hjáverkum | Áhrif saumavélarinnar á líf og störf kvenna á Íslandi 1865–1920
Bókasafnið Ísafirði | 25. október kl. 13:30 - 15:00

Arnheiður Steinþórsdóttir sér um viðburð í formi fyrirlestrar og umræðna þar sem gestir fá tækifæri til að segja frá saumavélum úr eigin fjölskyldusögu. Sjá viðburðinn á Facebook.

Kvennaraddir
Amtsbókasafnið í Stykkishólmi | 25. október kl. 16:30

Sunna Guðný Högnadóttir bókmenntafræðingur lítur aftur til BA-ritgerðar sinnar frá 2013 um póstfemínísk viðhorf í íslenskum skvísubókum. Í fyrirlestrinum veltir hún fyrir sér hvernig hugmyndir um kvenleika, frelsi og þrýsting birtust þá – og hvernig þær lifa enn í menningu samtímans, frá Makalaus til samfélagsmiðla. Eftir fyrirlesturinn er gott rými fyrir samræður um efnið og upplifun gesta af því. Sjá viðburðinn á Facebook.

Konur á rauðum sokkum | Kvikmyndasýning í Félagsbíói
Bókasafn Reykjanesbæjar - Aðalsafn | 26. október kl. 13:00 - 14:00
Kvikmyndin fjallar um hina íslensku rauðsokkahreyfingu sem starfaði allan áttunda áratuginn, saga hreyfingarinnar er rakin og fjallað um helstu baráttumál kvenna á þessum árum.

 

Um verkefnið Læsi á stöðu og baráttu kvenna