Á Svövustund í Bókasafni Hafnarfjarðar
Á Svövustund í Bókasafni Hafnarfjarðar

Svövustund á Kvennaári 2025

LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins.

Læsi á stöðu og baráttu kvenna lógó

__________________________________________________________

Á Svövustund í Bókasafni Hafnarfjarðar

Undirbúningur og efnisöflun

Undirbúningur að verkefninu hófst strax á vordögum 2025 þegar Bókasafni Hafnarfjarðar bauðst að taka þátt í verkefninu. Samstundis vissum við að við vildum heiðra Svövu Jakobsdóttur og enn betra var að geta sniðið fögnuðinn í kring um afmælisdag hennar, 4.október. Með því að hafa samband við Kvennasögusafn tókst okkur að ná á nánustu ættingja Svövu, barnabörn hennar, sem ekki einungis veittu verkefninu blessun heldur sýndu því mikinn áhuga og gáfu ómetanlega innsýn í innra líf og hætti Svövu. Var það kærkomið.

Við völdum samstarf við norræna, feminíska leikhópinn Spindrift og Maríu Thelmu, leikkonu, fyrir upplestur á 4 smásögum. Því næst báðum Sjöfn Asare hjá Lestrarklefanum til að vera með fræðsluerindi, en Sjöfn er bókmenntafræðingur og sérhæfir sig að auki í leikhúsrýni. 

Þingræður voru lesnar, klipptar og settar upp á frambærilegan hátt með myndmerki bókasafnsins og styrkverkefnisins, sama gildir um brot úr völdum verkum Svövu.

Stuttu fyrir aðalviðburðinn (4. október) fengum við leyfi hjá leikstjóra og framleiðanda heimildamyndarinnar Svava (2004) til að sýna þá mynd hjá okkur og var hún samstundis sett á dagskrá 7. og 9. október.

Sýning um Svövu Jakobsdóttir í Bókasafni Hafnarfjarðar

Auglýsing og framkvæmd

Verkefnið var auglýst á samfélagsmiðlum safnsins, í Fjarðarfréttum, á vef Hafnarfjarðarbæjar (þar sem það fékk sérstakan sess nokkrum dögum fyrir viðburðinn), á vef safnsins, á veggspjöldum víða á höfuðborgarsvæðinu (sem hluti lykilatriða í dagskrá mánaðarins) og í útprentuðu efni innan safnsins. Að auki fjallaði menningarþátturinn Víðsjá á RÚV um fögnuðinn þegar tæp vika var til stefnu og endurflutti af því tilefni viðtal við frú Vigdísi Finnbogadóttur þar sem hún ræðir vinkonu sína, Svövu Jakobsdóttur.

Veggspjöldin með þingræðunum og verkum Svövu voru hengd upp, bækur hennar settar í útstillingu og sérstaklega keypt ísblóm og konfekt- þar sem það var í miklu uppáhaldi hjá Svövu, að sögn barnabarna, og við álitum viðburðinn þann 4. október (aðalviðburðinn) vera afmælisveislu. Nokkrum dögum fyrir þann viðburð hafði ein önnur leikkona úr Spindrifthópnum samband og sagðist ólm vilja vera auka-upplesari, ekki fyrir aukið fjármagn heldur bara til að heiðra Svövu. Bókasafnið varð við því og vorum við þá með Sjöfn Asare til að halda fræðsluerindi, Bergdísi Júlíu og Tinnu frá Spindrift auk Maríu Thelmu sem upplesara.

Fullsetið var á viðburðinum, 40 manns mættu og nutu sín. Dreifibréf með auglýsingu um sýningu á heimildamyndinni voru sett fram. Mikil ánægja var með viðburðinn og komu lánþegar á næstu vikum eftir að hrósa honum.

A3-veggspjöldin fengu að hanga uppi í dágóðan tíma, heimildamyndin var sýnd tvisvar á tónlistardeildinni kl. 17 - í stofustemmningu með konfekt við hönd og stöldruðu safngestir af öllum aldursskeiðum mislengi við - allt frá 2 mínútum upp í heildarlengd myndarinnar.

Hugrún Margrét Óladóttir skrásetti.